139. löggjafarþing — 63. fundur,  25. jan. 2011.

Magma.

[14:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt að það er alvarlegt atvinnuástand á Suðurnesjum og við hljótum öll að taka það alvarlega að reyna að leggja það af mörkum í þeim efnum sem hægt er. En ég held að það sé gagnlegast að sú umræða sé uppbyggileg og upplýst. Ég held að það þjóni ekki sérstökum tilgangi að finna sökudólga og kenna einhverju algjörlega óskyldu um.

Er það ekki staðreynd mála að það er ósamið um orkuverð milli þeirra aðila sem þarna ætluðu í samstarf? Eru ekki samskipti þessara tveggja heiðursmanna sem náðu, miðað við endursögn hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur að sameinast um að kenna öðrum um, fyrir gerðardómi í Svíþjóð? Og er ekki í þriðja lagi vaxandi óvissa um orkuframleiðslugetu svæða sem þarna eiga í hlut, þ.e. ef menn ætla ekki að sætta sig við ágenga nýtingu? Þetta hygg ég að sé mergurinn málsins.

Það að stefna um opinbert eignarhald á auðlindum og það að þjóðin fái eðlilegan arð af þeim fæli frá erlenda fjárfesta tel ég misskilning. Það er vel þekkt, og fjárfestar þekkja það vel, að lönd hafa yfirleitt í löggjöf sinni og jafnvel stjórnarskrá ýmis ákvæði til að tryggja stöðu sína. Nægir að benda á Kanada í þeim efnum. Fjárfestar sem nýta svona auðlindir þekkja þetta vel. Ég hef rætt við marga sem eru áhugasamir um að koma til Íslands og þeir óttast það ekki af þessum sökum. Ég tel þar af leiðandi alveg hægt að segja að sá þáttur málsins sé ýktur upp. Ég efast ekkert um það. En það er þægilegt fyrir menn sem eru í þessari stöðu að kenna einhverju svona löguðu um ef svo ber undir. En ég verð ekki var við það þegar farið er yfir þessi mál með bönkum, fjárfestingarsjóðum eða áhugasömum fjárfestum fyrir hönd stórfyrirtækja að þetta sé áhyggjuefni af þeirra hálfu, heldur þvert á móti átta þeir sig á því í vaxandi mæli að auðvitað eru orkuauðlindir Íslands takmarkaðar (Forseti hringir.) og það munu ekkert allir áhugasamir aðilar komast inn í röðina.