141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[10:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þverpólitísk sátt hefur verið í langan tíma um aðferðir og ferla vinnunnar við rammaáætlun sem m.a. hefur birst í samþykktum þingsályktunartillagna og laga þó að tekist hafi verið á um niðurstöðu málsins á lokasprettinum. Tímamót verða við samþykkt rammaáætlunar, stórum áfanga er lokið en aðrir taka við. Þeir lúta að vinnu vegna þeirra virkjunarkosta sem nýta má að uppfylltum skilyrðum, vegna friðlýsingar þeirra sem flokkaðir eru í vernd, og ekki síst bíður vinna við að svara þeim fjölmörgu spurningum sem urðu til þess að svæði voru sett í biðflokk.

Ég er þakklát öllum þeim sem gert hafa afgreiðslu rammaáætlunar mögulega og óska þess að þessi vandaða langtímaáætlun verði til þess að Íslendingar verndi landsvæði og nýti þau af skynsemi og taki ávallt almannahag til lengri tíma fram yfir skammtímahagsmuni.