141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:27]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Mývatn er einstök náttúruperla sem og Laxá í Þingeyjarsýslu sem rennur til sjávar úr því vatni. Mývatn er einstakt á heimsvísu og það er á ábyrgð Íslendinga að vernda vatnið. Eins og komið hefur fram eru líkur á því að afrennsli frá virkjun við Bjarnarflag muni eyðileggja þessa náttúruperlu.

Þar sem tillagan verður felld skora ég á hæstv. umhverfisráðherra og alla þá sem hafa möguleika á að beita sér fyrir því að Bjarnarflagsvirkjunin fari aftur í mjög ítarlegt umhverfismat. Það getur ekki gengið að Íslendingar eða Landsvirkjun, komist upp með að eyðileggja Mývatn.

Við horfum upp á svipað gerast varðandi okkar ástkæra Þingvallavatn sem er líka að skemmast að öllum líkindum vegna meiri bílaumferðar í gegnum þjóðgarðinn sem og vegna afrennslis frá Nesjavallavirkjun.

Á það að verða orðspor Íslands á alþjóðavettvangi að eyðileggja tvö af einum mikilvægustu stöðuvötnum í öllum heiminum? Ég vona svo sannarlega ekki.