141. löggjafarþing — 63. fundur,  14. jan. 2013.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:57]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vilji menn horfa faglega á virkjunarkostina á þessi kostur klárlega að fara í nýtingarflokk. Það fór fram ítarlegt umsagnarferli og umsagnir bárust frá fjölmörgum aðilum á Suðurlandi. Þær voru allar mjög jákvæðar. Virkjunin hefur verið útfærð á umhverfisvænni hátt en upprunalega var gert ráð fyrir, m.a. með stöðugu vatnsborði án árstíðabundinna sveiflna til að mæta þessu foki.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar ályktaði um málið og mikilvægi þess að færa yfirborð Hagavatns til fyrra horfs til að hefta sandfok og tryggja árangur uppgræðslustarfs sem hún hefur tekið þátt í, m.a. með Landgræðslu ríkisins. Hérna er á ferðinni mikilvægt náttúruverndarmál og alveg með ólíkindum að ekki sé hægt að greiða þessum virkjunarkosti leið, að ríkisstjórnin skuli vera svo bundin af þessari niðurstöðu ráðherranna að ekki megi hreyfa til einn einasta virkjunarkost þrátt fyrir (Forseti hringir.) að nýjar og ítarlegar upplýsingar hafi komið fram í ferlinu.