144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

ungt fólk og fyrstu íbúðarkaup.

[16:15]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Mig langar að svara nokkrum atriðum sem var komið hér inn á. Það liggja fyrir tillögur hjá innanríkisráðherra sem snúa að fólki í yfirveðsettum eignum og eru ákveðin útfærsla af lyklalögum. Ég geri ráð fyrir að þannig frumvarp komi fram fljótlega. Ég vildi líka nefna það sem sneri að áhyggjum fólks af lífeyrissparnaði. Ég held að ekki sé til öruggari fjárfesting fyrir lífeyrissjóðina en einmitt íbúðarhúsnæði, sérstaklega þegar þeir geta síðan leigt það og tryggt þar með ávöxtun á eigið fé sitt. Ég held að það sé nokkuð sem lífeyrissjóðirnir ættu sannarlega að kaupa.

Ég veit að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur líka haft áhuga á sölu og eignum Íbúðalánasjóðs þannig að ég vil aðeins koma inn á það. Núna voru auglýstir sjö leigupakkar sem ættu að geta myndað grunn að leigufélögum. Það var umtalsverður áhugi á þeim. Ég geri ráð fyrir að fljótlega muni koma í ljós hver niðurstaðan verður í því útboði.

Ég hef líka lýst því yfir að ég telji rétt að selja Klett. Það er hins vegar stjórn Íbúðalánasjóðs sem tekur ákvörðun um það eins og hvað varðar aðrar þær eignir sem eru í eigu Íbúðalánasjóðs, en ég tel mig vita að þær séu nánast allar til sölu ef rétt verð býðst.

Að lokum vil ég nefna sérstaklega að vitanlega munu þessar tillögur kosta. Það er mjög mikilvægt að tryggja nægt fjármagn til að við getum hrundið þeim í framkvæmd. Alveg eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sé ég eftir því fjármagni sem hefur streymt inn í Íbúðalánasjóð. Ég mundi mun frekar vilja sjá þann peninga fara í aðra þætti húsnæðiskerfisins þar sem við gætum raunverulega stutt fólk sem er í félagslegum og fjárhagsvanda, ungt fólk, fatlaða einstaklinga, aldraða og raunar aðra þá sem einhvern veginn standa höllum fæti í samfélaginu og síðan að við mótum þannig lagaramma sem snýr að almenna markaðnum (Forseti hringir.) að fólk geti starfað innan þeirra leikreglna.