146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[10:58]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Eins og hér hefur komið fram kynnti ráðherra fjármálaáætlunina fyrir allsherjar- og menntamálanefnd. Af hverju leyndi hann þessum áformum? Hvað býr að baki því að menn leyna svona áformum?

Mér heyrist að formaður allsherjar- og menntamálanefndar hafi ekki haft hugmynd um þetta frekar en aðrir þingmenn. Það væri áhugavert að vita hvort þingmenn stjórnarliða vissu eitthvað um þetta, því að þeir koma ekki hingað upp og tjá sig. Er þetta faglegt? Nei, þetta er ekki faglegt. Styður þetta við jafnrétti til náms? Nei, þetta styður ekki við jafnrétti til náms. Þetta er þess valdandi að ég velti fyrir mér hvort hægt sé að afgreiða fjármálaáætlun þessarar ríkisstjórnar. Mér finnst það ekki. Eru fleiri ráðherrar sem geta upplýst okkur hér, sem eru á sveimi um húsið, því að fram undan er atkvæðagreiðsla, um einhver stór mál eins og það sem er undir núna? Aðhaldið birtist augljóslega með þessum hætti. Eru (Forseti hringir.) fleiri stór mál? Því að aðhaldið er mjög mikið í þessari ríkisfjármálaáætlun hægri stjórnarinnar.