146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar.

[11:22]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Á dögunum, þegar við vorum að ræða einkavæðingu bankanna, kom hæstv. fjármálaráðherra Benedikt Jóhannesson í ræðustól og talaði um gott ferli. Hann talaði um að ferlið þyrfti að vera opið, það þyrfti að vera gagnsætt. Hann var spurður af hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur um það. Hann kom hér upp og þingheimur var vægast sagt sáttur við svörin. — Opið, gagnsætt, hafið yfir vafa, hafið yfir gagnrýni. Er það ekki bara eðlileg krafa? Fjármálaráðherra fannst það eðlileg krafa. Hann kom upp og sagði: Já, já, já, og landsmenn eiga að fá að vita. Þetta er spurning um ferli. Það eru margir sem vilja hafa einkarekna skóla. Ég vil hafa einkarekna skóla. Ég vil ekki að þeir séu reknir út frá gróðasjónarmiði. Ég vil ekki hafa einkarekna heilbrigðisþjónustu af því að þar viljum við fækka. Við viljum ekki að það blási út sem einkaframtakið gerir. Við viljum fjölga þegar kemur að nemendum, en þau okkar sem vilja að hér sé einkarekstur, ég tala nú ekki um einkavæðingu á vegum ríkisins, vilja að hann sé opinn, gagnsær, hafinn yfir vafa, (Forseti hringir.) hafinn yfir gagnrýni og allt gert í samráði. Það er ekki gert hér.