146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

fjárveitingar til sjúkrahúsþjónustu.

[11:27]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég get svo sannarlega tekið undir það með hv. þingmanni að æskilegt væri að hér væri heilbrigð fækkun sjúkra. Við tókum bæði þátt í pallborði í gær hinum megin við Vonarstræti þar sem rætt var um forvarnir og þátttöku fólks í heilbrigðu líferni og að það gæti einmitt leitt til þess að dregið yrði úr kostnaði við heilbrigðisþjónustu.

Við í ríkisstjórninni erum með ýmsum hætti að gera það. Til dæmis erum við að efla sálfræðiþjónustu í framhaldsskólum. Verið er að bæta við sálfræðingum í heilsugæsluna o.s.frv. Það er hins vegar svo að við erum líka að bæta í lyfjakostnað þessa dagana. Það er verið að bæta við nýjum lyfjum. Heilbrigðisþjónusta er auðvitað mjög víðtæk. Það er verið að breyta kerfi heilbrigðismála þannig að það sé skipað með öðrum hætti. En forsvarsmenn Landspítalans hafa bent á ákveðin atriði, t.d. að á bráðamóttöku spítalans sé verið að taka við ýmsum sjúklingum sem ættu miklu frekar að koma á heilsugæslustöðvar. Það er verið að beina þeim í þennan farveg. Jafnframt hafa forsvarsmenn spítalans bent á það sem ég tel rétt og málefnalegt, að á spítalanum séu margir aldraðir sem ættu í raun og veru heima annars staðar. Á öll þau rök er hlustað og að öllu því er unnið.