146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

nefnd um endurskoðun búvörusamninga.

[11:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Ég vil þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir spurningarnar og málefnalega nálgun í þeim mikilvæga málaflokki sem sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin eru. Ég ætla ekki að draga dul á það að ég og hv. þingmaður deilum ekki sömu skoðunum varðandi það hvernig það eigi að byggja upp m.a. í landbúnaði og sjávarútvegi, sérstaklega í landbúnaði. Það kemur engum á óvart að það er ákveðið uppbyggingarferli sem þarf að eiga sér stað eftir að búvörusamningur var samþykktur hér naumlega með 19 atkvæðum gegn 7 á síðasta kjörtímabili undir forystu m.a. hv. þingmanns.

Það þarf að vinna til baka traust og trúnað m.a. í samfélaginu gagnvart landbúnaðinum. Landbúnaðurinn á gríðarleg tækifæri fram undan, sem ég veit að hv. þingmaður veit vel af. Þess vegna skiptir máli að vinna hlutina rétt, tengja saman neytendur og bændur, því að þar liggja hagsmunirnir saman. Það á að sjálfsögðu að skoða hvernig hlutirnir eiga sér stað í öðrum ríkjum og það verður að gerast á forsendum ráðuneytisins, ekki á grundvelli þess sem hagsmunasamtök, hvort sem þau heita Bændasamtökin, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi eða annað, setja fram. Það verður að vera gert á grundvelli stjórnsýslunnar en ekki hagsmunasamtaka.

Það er alveg rétt að ég breytti hópnum, endurskoðunarhópnum sem var skipaður á síðasta kjörtímabili, af því að mér fannst breiddin ekki vera næg. Mér finnst þetta einmitt nálgunin sem ég hef boðað, að reyna að tengja saman enn frekar hagsmuni bænda við neytendur, því að þeir fara saman, inn á það borð sem tilheyrir endurskoðunarnefndinni. Ég veit að þrátt fyrir að menn hafi verið að agnúast út í fulltrúa m.a. frá Félagi atvinnurekenda, það eru fulltrúar neytenda þar inni og m.a. er viðkomandi einstaklingur sem leiðir nefndina ekki í sama flokki og ég, þá gengur sú vinna vel. Mér finnst miður ef menn í þingsal með mikla reynslu ætla að sá fræjum tortryggni í það mikilvæga starf sem endurskoðunarnefndin hefur með að gera.