146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[14:03]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir andsvarið. Ég hefði gjarnan viljað heyra varðandi þróunarmálin hvers vegna svo stór hluti framlaga til þróunarmála fer í verkefni hér innan lands. Ég styð það og mun alltaf gera að fjárframlög við málefni flóttamanna og hælisleitenda verði aukin að öllu leyti. En að klípa það af fjárframlögum til þróunarsamvinnu á erlendri grundu er óviðeigandi. Það er óviðeigandi. (Gripið fram í.)

Varðandi krónutöluna sem ég var að óska eftir því að hæstv. utanríkisráðherra svaraði mér um, þ.e. varðandi gengisstyrkinguna, af því hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra hafa báðir verið að tala um krónutölurnar sem eru ekki í tengslum við viðmiðin sem við höfum undirgengist heldur hlutfallið. En ef hæstv. ráðherrar utanríkismála og forsætis vilja tengja þessi mál við krónutölurnar þá hefur orðið hér gríðarleg gengisstyrking vegna þess að útgjöld til þróunarmála eru jú greidd út í erlendum gjaldeyri. Þegar krónan hefur styrkst hefur þessi krónutala því miður minnkað.

En síðan hef ég áhuga á því, fyrst hæstv. utanríkisráðherra er í stuði til þess að koma upp í andsvör við mig, sem er gott og vel og gaman að því, hefði ég líka viljað fá nokkur svör við því hvað hann á við varðandi málefni flóttamanna og hælisleitenda í fjölþjóðlegu átaki, þ.e. að gera þurfi viðeigandi öryggisráðstafanir á landamærum og bregðast við komu flóttamanna og hælisleitenda. Hvað á hæstv. ráðherra nákvæmlega við í þeim efnum eins og ég minntist á í ræðu minni hér áðan?