146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[16:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni og ber virðingu fyrir skoðunum hennar sama hverjar þær eru. Þegar kemur að ESB virði ég skoðanir hennar fullkomlega. Ég held að við séum sammála um að við eigum að gera enn betur þegar kemur að því að gæta hagsmuna okkar varðandi EES. Við eigum áfram að nýta okkur kosti EFTA. Ég held að þar sé góður samhljómur með öllum þingmönnum og líka hv. þingmanni sem hér talaði.

Eitt af stærstu málunum sem hv. þingmaður vísaði til og gerði að umtalsefni áðan, sem mér fannst mjög gott, var ástandið í Tsjetsjeníu. Það er á fleiri sviðum bágborið ástand þegar kemur að mannréttindamálum þó að þetta sé miklu stærra — við höfum alla vega ekki fengið fregnir af svona hlutum mjög lengi.

Við Íslendingar erum auðvitað fámenn þjóð, við munum ekki breyta þessum hlutum í grundvallaratriðum. Við erum hins vegar með rödd og stundum höfum við sögu að segja. Það er ekkert mjög langt síðan að viðhorf til samkynhneigðra voru allt öðruvísi hér á landi, þó svo að við höfum aldrei gert svona hluti eins og þarna virðast því miður vera á ferðinni. Það breyttist mjög hratt. Ég held að við getum fullyrt að þjóðfélagið varð miklu betra á eftir. Við getum þess vegna sagt þá sögu á alþjóðavettvangi og bent þeim fjölmörgu þjóðum á, því að þó að menn séu ekki í þeim 75 ríkjum þar sem þetta er bannað — þetta er að vísu ekki bannað í Rússlandi, og þegar ég hef rætt við rússneska ráðamenn hef ég heyrt ekki nein slík sjónarmið eins og komið hafa fram í Tsjetsjeníu, þar er langur vegur frá. En samt sem áður eru sjónarmiðin þar nú eins og þau voru (Forseti hringir.) fyrir einhverjum áratugum á Íslandi, og kannski verri. Við eigum að vekja athygli á því að þjóðfélög verða einungis betri við að þessi viðhorf breytist.