148. löggjafarþing — 63. fundur,  29. maí 2018.

Störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Í sjávarútvegi höfum við takmarkað erlendar fjárfestingar. Nú hefur komið fram atvinnuvegur sem hefur skotið honum aftur fyrir sig, ferðaþjónustan. Fjárfestingar þar hafa hingað til fyrst og fremst verið langmest innlendar. Nú gætu breytingar verið í augsýn. Þá spyr ég: Hvetjum við til ótakmarkaðra erlendra fjárfestinga í ferðaþjónustu? Er pólitískur samhljómur fyrir því?

Ég spyr vegna þess að nú liggur fyrir stór og vandaður bæklingur á ensku frá GAMMA sem er þekkt fjármálaráðgjafarfyrirtæki. Hann á að laða að erlenda fjárfesta. Innihaldið er ákaflega jákvætt og lofandi: Ísland er land tækifæranna er meginstefið í þeim bæklingi. Þolmörk og aðgangsstýring önnur en hátt verðlag eða fjöldi fluga til landsins eru þar fjarstödd hugtök. Það þykir mér miður.

Við eigum auðvitað að stýra vexti greinarinnar út frá sjálfbærni og þolmörkum og hyggja að aðgangsstýringu með margvíslegu móti en ekki treysta á verðlag, jafnvel okur, eða svo og svo mörg flug til landsins. Ég hvet þingheim til að kynna sér þennan bækling og hefja nauðsynlega umræðu um erlendar fjárfestingar í ferðaþjónustu. Ég hvet líka ríkisstjórnina til þess að hraða og vanda stefnumótun í ferðaþjónustu sem boðuð er í samstarfi við þingið.