149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:25]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Auðvitað snýst þetta allt um þörfina fyrir viðbótarfjármagn. Þess vegna vil ég ítreka spurningu mína: Hefur hv. þingmaður lagt fram hugmyndir eða tillögur um viðbótarfjármagn til samgöngumála í fjármálaáætlun? Ég heyrði að hann ræddi um sölu ríkiseigna, enda er það eitt af því sem talið er upp í nefndarálitinu að sé mögulegt, ef til þess kemur og aðstæður eru til þess. En það er heldur ekki nóg, ef við förum út í það.

Í andsvari sem hv. þingmaður veitti hér í gær gat ég ekki annað skilið en hann væri að túlka það svo að verkefnum í samgönguáætlun hefði verið endurraðað frá því að hún var lögð fyrir þingið í mars. Það var ekki alveg ljóst af ræðu hans í dag hvort hann væri að túlka áætlunina þannig. Mig langar bara að fá úr því skorið (Forseti hringir.) hvað þingmaðurinn átti við.