149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:50]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Frú forseti. Það er hægt að halda langar ræður og koma að þessu máli á mjög mismunandi vegu, og það ætla ég að gera. Ég ætla að koma að þessu máli frá ólíkum sjónarhornum. Af nógu er að taka. Margt hefur verið sagt hér mjög gott. Þetta hefur verið ágætisumræða með ólíkum sjónarmiðum sem er ágætt að hafa til hliðsjónar. Ég kom hins vegar hingað upp til að halda á lofti einu ákveðnu sjónarhorni.

Það varð hér ágætisumræða í gær um framtíðina, um þá sýn sem við höfum fyrir það samfélag sem við byggjum. Ég held að við séum flest sammála þar, vonandi — ekki alveg öll reyndar. Mér fannst það koma glögglega í ljós í sérstakri umræðu í síðustu viku, ef ég man rétt, um borgarlínu og almenningssamgöngur. Þegar kemur að samgöngumálum almennt þá nálgast ég þær fyrst og fremst út frá því að huga að almenningssamgöngum.

Síðan er hægt að fara inn í vegarspotta hér eða þar eða hvað verið er að gera á þessu svæði og hinu o.s.frv. og það hefur verið mjög vel og ítarlega gert í þessari umræðu. Ég ætla að leyfa mér að sneiða hjá því. Það þýðir ekki að mér finnist það ekki mikilvægt eða merkilegt, en ég ætla að leyfa mér að hafa það sjónarhorn að leiðarljósi. Það þarf ekkert að lengja það með því að ítreka það enn einu sinni, en þó er gott að hafa í huga hvað við horfum á á þessu svæði — til ársins 2040 mun íbúum fjölga um 70.000.

Það er alveg sama hvaða afstöðu við höfum til hins eða þessa. Ef við gerum ekki neitt heldur förum eftir þeim hefðbundnu skiptingum á samgöngum sem við búum við í dag — ef umferðin þróast áfram eins og hún er í dag — horfum við fram á að við verðum 40% lengur í umferðinni en nú er. Þó að við færum blandaða leið og færum í að byggja upp háhraðaalmenningssamgöngur mun tafatíminn samt aukast. Það eru bara staðreyndir og alveg sama hvað okkur finnst um það. Borgarlína er einfaldlega svarið.

Ef svarið er annað er spurningin kannski bara vitlaus þegar kemur að umræðum um samgöngur hér á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum nefnilega stundum rætt um samgöngur eins og málið snúist eingöngu um það hvað verði um bílana. Hvernig kemur þetta niður á bíleigendum? Hvað verður um bíleigendur hér eða bíleigendur þar? Ég sé fyrir mér samfélag þar sem fólk getur verið án þess að eiga bíl. Þar sem æ færri eiga bíl. Ég tala þar af nokkurri reynslu. Á mínum árum, frá því að ég fékk bílpróf 18 ára gamall, hef ég átt bíl í um það bil fimm ár. Það er alveg hægt að eiga ekki bíl en það er erfitt þegar maður þarf að sinna mörgu og fara með börnin hingað og þangað o.s.frv. Það er erfitt þegar við erum að horfa á þann massa sem við erum að tala um að verði hér.

Þess vegna þurfum við stórtækar aðgerðir. Við þurfum öll að stefna að sama markmiði sem er að auka hlutdeild almenningssamgangna, sem er að koma upp alvörualmenningssamgangnakerfi hér á höfuðborgarsvæðinu eins og við sjáum í öllum borgum í öllum löndum í kringum okkur. Það er alveg sama hvert við förum á ferðalagi. Mér hefur alltaf þótt það dálítið merkilegt þegar Íslendingar fara í ferðalag til útlanda. Þá stökkva þeir upp í lestir eða neðanjarðarlestir eða strætó eða hvað það er, ekkert mál — fljúga svo heim og þurfa að láta sækja sig á Keflavíkurflugvöll. Ekki af því að það sé ekki í boði að fara aðra leið. Það er bara eins og það gerist eitthvað í hugarfarinu. Hér förum við á einkabíl. Það þarf að breyta því hugarfari en það breytist ekki, held ég, nema við komum upp valkostinum almenningssamgangnakerfi. Hvernig gerum við það?

Ég ætla að gerast svo djarfur, forseti, og segja: Mér er eiginlega nákvæmlega sama. Það er kannski fulldjúpt í árinni tekið en það er ekki lykilatriði fyrir mér. Ég vil bara finna leiðina til að gera það. Er það með veggjöldum? Kannski. Það er það sem við höfum verið að ræða við þau sem véla um skipulagsmál á þessu svæði. Er það í gegnum skattkerfið hreint og beint? Kannski. Ég óttast, ef það verður raunin, að dálítil töf verði á þessu því við erum að tala um umfangsmiklar upphæðir. Við erum að tala um tugi milljarða. Við höfum upplifað það hér í þessum sal að ef við erum að tala um að eyða peningum í eitthvað þá kemur einhver mjög fljótt og segir: Bíddu, hvað með þessa? Af hverju erum við ekki að eyða þessum fjármunum úr ríkissjóði í þennan hóp sem sannarlega þarf á þeim að halda?

Erum við að tala um einhverja aðra leið? Erum við að tala um — ég bara veit það ekki. Eins og ég segi: Finnum leiðina. Hér tölum við um veggjöld og höfum skoðun á veggjöldum eins og það sé á hreinu hvaða veggjöld verið er að tala um í þessari samgönguáætlun. Það er alls ekki þannig. Það er alls ekki á hreinu hvernig þessi veggjöld líta út af því að starfshópur sem er að störfum er ekki búinn að skila af sér.

Verður innheimtan svona eða hinsegin? Ég veit það ekki. Er einhver önnur leið betri en hin? Ég veit það ekki. Eigum við að horfa til Óslóar? Eigum við að horfa til einhverra annarra landa? Finnum bara lausnina. Fyrir mér snúast gjöld sem við innheimtum um að skapa almannagæði og borgarlína, sem er hágæða- og háhraðaalmenningssamgöngur, er í mínum huga almannagæði. Finnum leiðina til að koma þeim á. Þó að við gerðum ekkert annað, við sem stöndum hér inni, á okkar pólitíska ferli en að stuðla að því að borgarlínan verði að veruleika, gætum við hætt á þingi, hvenær sem það verður, stolt.