150. löggjafarþing — 63. fundur,  24. feb. 2020.

aðgengi hælisleitenda að almenningssamgöngum.

343. mál
[17:08]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem stungu sér inn í umræðuna. Mér finnst alltaf jákvætt þegar það gerist og þetta verður eins og lítil sérstök umræða um eitthvert mál. Mér finnst alltaf jákvætt að fá fram fleiri sjónarmið þegar við erum að ræða fyrirspurnir til ráðherra.

Ég þakka einnig hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þó að þau séu ekki alveg þau sem ég vonaðist eftir fannst mér hæstv. ráðherra samt vera með jákvætt viðhorf í sínum málflutningi. Mér finnst líka jákvætt að hinsegin umsækjendur skuli fá strætómiða til að sækja fundi hjá Samtökunum '78. Það sýnir hins vegar að það er svolítið verið að velja fyrir fólk hvað er talið það mikilvægt að viðkomandi fái strætómiða til að sækja fundi og viðburði. Þó að þetta sé auðvitað jákvætt og gott tel ég að það væri miklu betra ef fólk gæti sjálft bara valið hvað það vill sækja. Við vitum alveg að í höfuðborginni er alls konar þjónusta í boði og alls konar hlutir í gangi sem ekki eru í boði þó að um stórt sveitarfélag sé að ræða.

Svo langar mig að nefna beint í lokin að ég held að það sé líka ástæða til að auka við þá aðstöðu sem er á Ásbrú. Til að mynda er erfitt (Forseti hringir.) að komast þar í líkamsræktaraðstöðu þannig að fólk hefur mjög lítið að gera. Við þurfum að bæta í, sérstaklega með þá hluti sem eru ekki mjög kostnaðarsamir eins og líkamsræktaraðstaða til að fólk sitji ekki bara, stari út í loftið og bíði örlaga sinna.