150. löggjafarþing — 63. fundur,  24. feb. 2020.

barnaverndarnefndir.

356. mál
[17:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þórhildur Sunna Ævarsdóttir) (P):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að spyrja hæstv. ráðherra Ásmund Einar Daðason hvernig það sé tryggt að barnaverndarnefndir fari eftir málsmeðferðarreglum, tryggi hæfi og tryggi að hagsmunaaðilar geti ekki haft áhrif á störf þeirra. Ég einblíni sérstaklega á lítil sveitarfélög, bara í ljósi nálægðar og tengsla í slíkum sveitarfélögum þar sem líkurnar aukast á því að hagsmunaárekstrar geti komið upp í störfum slíkra nefnda.

Barnaverndarnefndir eru mjög mikilvægar til að vernda réttindi og hagsmuni barna og ég hef heyrt á málflutningi hæstv. ráðherra að hann hefur hagsmuni barna í fyrirrúmi og er í vinnu núna við að endurbæta barnaverndarkerfið sem við búum við í dag. Ástæðan að baki spurningum mínum er liður í þó nokkuð mörgum fyrirspurnum sem ég hef staðið að um vernd barna gegn ofbeldi í hinu íslenska kerfi og rennur undan rifjum samtakanna Líf án ofbeldis sem ég aðstoðaði við að koma fyrirspurnum þeirra í svokallaðan þinglegan búning. Þessi spurning er ein þeirra sem mér finnst mikilvægt að verði svarað.

Hæstv. ráðherra mun eflaust upplýsa okkur um þá mikilvægu vinnu sem er í gangi núna og þær breytingar sem eru í farvatninu í svari sínu til mín en ég vildi gjarnan líka heyra álit hæstv. ráðherra á stöðunni núna, hvort hún sé fullnægjandi þegar kemur að vernd barna gegn ofbeldi og að það sé tryggt að hagsmunaárekstrar ráði ekki för við meðferð barnaverndarmála. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvernig er háttað eftirliti með hæfisreglum stjórnsýsluréttar og öðrum mikilvægum málsmeðferðarreglum í barnaverndarmálum? Finnst hæstv. ráðherra eftirlitið eins og það er í dag fullnægjandi? Eru viðurlög við því að brjóta þær málsmeðferðarreglur sem gilda um meðferð barnaverndarmála af hálfu nefndarmanna barnaverndarnefnda? Hvernig koma yfirstandandi breytingar til með að koma til móts við þá galla, ef einhverjir, að mati hæstv. ráðherra?