151. löggjafarþing — 63. fundur,  3. mars 2021.

uppbygging geðsjúkrahúss.

395. mál
[16:49]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og þessa þingsályktunartillögu sem ég get að mörgu leyti tekið undir og verið sammála en ekki alveg öllu leyti. Ég myndi, virðulegur forseti, gjarnan vilja breyta henni á þann hátt að við værum eingöngu að tala um að tryggja bætta aðstöðu og uppbyggingu geðsjúkrahúss á höfuðborgarsvæðinu. Með öðrum orðum sé ég ekki ástæðuna fyrir því að það þurfi endilega að vera geðsvið Landspítalans sem byggir slíkt upp.

Til að útskýra mál mitt frekar þá er ég að sjálfsögðu hlynnt því og við eigum að eiga öflugan og mikilvægan ríkisspítala, Landspítala – háskólasjúkrahús, og nú hefur verið tekist á um það svo áratugum skiptir hvar hann eigi að vera staðsettur. Nú er niðurstaðan í því að Landspítali – háskólasjúkrahús skuli byggjast upp við Hringbraut. Ég hef aldrei skilið það að allar tegundir lækninga eða fræðasviða þurfi að heyra undir Landspítalann sem rekstrareiningu og þaðan af síður að þær þurfi allar að vera við Hringbraut. Ég hef skilning á því að ákveðna þætti sé skynsamlegt að hafa á sama stað og hafa einhverja samnýtingu en ég hef lengi horft til ákveðinnar fegurðar sem hefur einmitt falist í — ég ætla að nefna Reykjalund, endurhæfingarspítala í Mosfellsbæ, í ofboðslega fallegu umhverfi, og ég myndi seint vilja sjá þá starfsemi flutta t.d. niður á Hringbraut, né heldur myndi ég vilja sjá þá starfsemi heyra undir Landspítalann. Ég sé engan tilgang með því. Ég hef oft horft til Kleppsspítala líka og verð ég að segja að ég er alin upp á Kleppi í orðsins fyllstu merkingu, bjó í litlu húsnæði við hliðina á Kleppsspítala. Á þeim tíma, auðvitað eru komnir einhverjir áratugir síðan, var það ofboðslega fallegt umhverfi, æðislegt umhverfi til útivistar og mikil náttúra þar í kring. En nú vitum við að svæðið er mjög breytt og eins og ég skildi tillöguflytjanda áðan þá er auðvitað verið að tala um að finna einmitt nýjan stað þar sem hægt er að bjóða upp á slíka aðstöðu.

Ég ætla líka að nefna Vog, meðferðarspítala sem er einmitt ekki rekinn af Landspítalanum og er ekki á sama stað. Þá er hægt að nefna St. Jósefsspítalann gamla í Hafnarfirði. Ég held að það sé ofboðslega mikilvægt að við hugum að uppbyggingu á geðsjúkrahúsi hér á höfuðborgarsvæðinu og horfum til staðsetningar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu en á Hringbraut. Ég held að engin ástæða sé til að festa sig við að slíkur spítali þyrfti að heyra undir rekstur Landspítalans. Ég velti því hreinlega fyrir mér hvort Landspítalinn eigi ekki fullt í fangi með að sinna öðrum mikilvægum heilbrigðistilfellum. Hvort sem það væri opinber stofnun eða einhver félagasamtök sem kæmu að slíkum rekstri, þá er ég að tala um að rekstrarkostnaður geðsjúkrahúss yrði alltaf greiddur af hinu opinbera, með skattfé, en það er spurning um rekstrarumhverfi í kringum það.

Mig langar líka að nota tækifærið til að nefna mikilvægi fjarlækninga eins og ég hef talað um áður í dag í öðrum málum. Ég veit að við höfum gert ofboðslega mikið á síðustu misserum í geðheilbrigðisþjónustunni okkar og sálfræðiþjónustu og öðru en við getum, eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir kom svo vel inn á, gert svo miklu betur. Það eru ofboðslega mikil sóknarfæri í því að veita enn betri þjónustu á því sviði. Ég held að við verðum líka að horfa á það að fjarlækningar og það að nota tæknina og huga kannski að ákveðinni nýsköpun í þjónustuformi skiptir miklu máli. Það er alltaf þannig að einhverjir eru það veikir að þeir þurfa á því að halda að leggjast inn á spítala en oft er hægt að veita þjónustuna án þess að það þurfi göngudeildarmeðferð. Maður veltir fyrir sér, af því að nú hef ég fylgt aðstandanda t.d. í göngudeildarmeðferð upp á geðsvið Landspítalans: Af hverju þarf fólk endilega koma og sitja á biðstofu til að tala við lækni? Stundum er hægt að gera það í gegnum fjarfund eða Zoom, sem allir kunna orðið á í dag, eða eitthvað annað sambærilegt. Í þeim tilfellum sem fólk útskrifast frá geðsviði þá vantar líka oft endurhæfinguna og utanumhaldið eftir útskrift og ég held að það séu ofboðslega mikil tækifæri í því að veita slíka þjónustu með meðferðarviðtölum. Það þarf ekki alltaf að vera þannig að einstaklingurinn þurfi að mæta og bíða eftir að hitta viðkomandi sérfræðing heldur er hægt að gera það í auknum mæli í gegnum tölvu.

Ég óska hv. þingmanni til hamingju með þessa tillögu og vil bara beina þeim sjónarmiðum inn í hv. velferðarnefnd sem fer yfir hana hvort kannski sé ástæða til að taka orðin „geðsvið Landspítalans“ út úr fyrstu setningu þessarar þingsályktunartillögu og horfa frekar á að bara sé verið að tryggja og bæta aðstöðu sem er fólgin í geðsjúkrahúsi hér á höfuðborgarsvæðinu. Við myndum svo setja það kannski í annan farveg að átta okkur á því hvernig því væri best fyrir komið, hvort það væri sjálfstæð stofnun eða í samrekstri með einhverjum öðrum.