152. löggjafarþing — 63. fundur,  6. apr. 2022.

störf þingsins.

[14:21]
Horfa

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Húsnæðismálin eru spennandi áskorun og fluttust þau nýverið í innviðaráðuneytið og undir stjórn hæstv. innviðaráðherra. Þau brenna á okkur og í ráðuneytinu eru allar hendur á dekki. Mikil greiningarvinna stendur yfir sem og stefnumótun. Ráðherra mun leggja fram í þinginu tillögu til þingsályktunar í húsnæðismálum síðar á þessu ári sem verður sú fyrsta sinnar tegundar. Það er ekki í fyrsta sinn sem Framsókn finnur lausnir og fer nýjar leiðir og hafa þær skilað mjög góðum árangri í þágu samfélagsins alls. Í þeirri fjármálaáætlun sem liggur fyrir þinginu núna og er til umræðu er stigið varlega til jarðar af þeirri einföldu ástæðu að unnið er að greiningu á stöðunni og í framhaldi mun stefnumótun liggja fyrir. Ljóst er að fyrsta skrefið er að fjölga byggingarhæfum lóðum. Það er verið að greina stöðuna á því þessa dagana og greina á hverju strandar og hvað þurfi frekar til. Horft er til samninga milli ráðuneytisins og sveitarfélaga um skipulag lóða í takt við mannfjöldaspá og húsnæðisáætlanir. Sveitarfélög finna til ábyrgðar og vilja leggja sitt af mörkum fyrir fólkið í landinu.

Virðulegur forseti. Það þarf víðtæka samvinnu til að ná jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar á húsnæðismarkaði og þegar jafnvægi er náð er lykilatriði að stjórnvöld styðji við þá sem helst þurfa á því að halda, hvort heldur sem er með hlutdeildarlánum, félagslegu eignarkerfi, húsnæðisbótum eða hverju því sem dugar til að ná markmiðum um velsæld. Hér skiptir samvinna öllu máli, samvinna sveitarfélaganna og ríkisins, og það verða allir að leggja hönd á plóg. Þörfin er aðkallandi og sveitarfélögin verða að bregðast við í nánu samstarfi við ríkið. Ég hef fulla trú á hæstv. innviðaráðherra til að landa málinu nú sem áður.