Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 63. fundur,  8. feb. 2023.

lengd þingfundar.

[15:07]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég hef mjög takmarkaðan skilning á því hvers vegna Píratar vilja tala svona mikið um þetta mál sem er að engu orðið. Hv. þingmenn Pírata ættu að gleðjast yfir því að þeim hafi tekist á fimm árum að þynna út þetta litla útlendingamál dómsmálaráðherra að því marki að það mun ekki skipta neinu máli. Það mun ekki hafa nein áhrif nema kannski helst þau að flækja málið enn þá meira. En að því sögðu þá er svokallað málþóf hv. þingmanna Pírata ekki gagnslaust því að á meðan þeir tala þá gerir ríkisstjórnin ekkert af sér hérna í þingsal. [Hlátur í þingsal.] Þess vegna ættum við að huga að því, herra forseti, (Gripið fram í.) að það getur líka verið gott að koma í veg fyrir tjón. [Hlátur í þingsal.] Engu að síður ætla ég að greiða atkvæði með lengingu þingfundar til að liðka fyrir þingstörfum eins og minn er háttur, herra forseti. [Hlátur í þingsal.]