154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.

[10:45]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að leiðrétta þær fullyrðingar hæstv. fjármálaráðherra að Viðreisn hafi verið með miklar útgjaldatillögur. Það er einfaldlega rangt. En þetta er kannski nálgun á ríkisfjármálin sem ég er akkúrat að gagnrýna hér, það eru óábyrgar yfirlýsingar, það eru fullyrðingar um að það eigi að fara að laga hlutina bráðum, t.d. í vor, af því að það á að ræða þessa hluti. Það á að ræða aðhaldið í vor þegar fjármálaáætlun er lögð fram, það á ekki að gera það, það á að ræða það. Við þekkjum öll, því miður, ekki síst heimili landsins á eigin buddu, hver niðurstaðan er af ríkisfjármálunum þegar þessir ríkisstjórnarflokkar koma saman og ræða sig í gegnum hlutina. Það sem gerist t.d. í millitíðinni er að það eru kjarasamningar og það skortir nú ekki á yfirlýsingar um það hvernig ríkið ætli sér að koma að þeim kjarasamningum með enn frekari ríkisútgjöldum eða í besta falli skorti á aðhaldi í ríkisfjármálum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hér í lokin: (Forseti hringir.) Hvernig sér hún fyrir sér að ríkið komi að kjarasamningunum þegar staðan í ríkisfjármálum er svona? Er það óútfylltur tékki sem síðan á að ræða í fjármálaáætlun, (Forseti hringir.) svo í fjárlögum næsta árs, svo fjármálaáætlun þarnæsta árs og svo koma kosningar og þá haga þessir ríkisstjórnarflokkar sér eins og þeir séu í stjórnarandstöðu og gagnrýna stöðu ríkisfjármálanna? (Forseti hringir.) Er það planið? Hvað er planið, hæstv. ráðherra?

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum er takmarkaður við tvær mínútur í fyrri ræðu og eina mínútu í síðari ræðu.)