154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

fjáraukalög 2024.

626. mál
[11:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum í raun að nýta þá reynslu, eins skemmtileg og hún var, úr heimsfaraldri, þ.e. við erum að horfa á tekjufallsstyrki. Við reynum líka að læra af reynslunni, það sem betur hefði mátt fara, í nálgun á það. Við erum til að mynda að leggja upp með að það verði miðað við raunverulegt tekjufall. Í stóru aðgerðinni í Covid fyrir landið allt var þetta sett í þrep og það var töluvert gagnrýnt, en þar vorum við líka í kappi við tímann, vorum með allt landið undir. Núna teljum við raunhæft að miða við raunverulegt tekjufall vegna þess að mengið er minna og það er þá í leiðinni vonandi hægt að undirbyggja það — ég vona að það reyni ekki á það aftur, en ef það gerir það þá gætum við miðað við raunstöðu.

Í því frumvarpi sem ég vona að komi inn í þingið í næstu viku er verið að gera ráð fyrir að rekstrarstuðningur sé að hámarki 6 millj. kr. fyrir hvern almanaksmánuð hjá rekstraraðila og miðað við u.þ.b. tíu starfsmenn. Þessar tölur erum við að máta við — bara ef þú horfir á mengi atvinnurekenda í Grindavík: Hverjir eru einyrkjar? Hvað eru margir starfsmenn? Hvað eru þetta mörg fyrirtæki? Þá er þessi útfærsla mátuð sérstaklega á þær aðstæður og þá stöðu, þannig að við teljum okkur vera að gera gagn með því og að þetta sé þetta súrefni. Við vorum til að mynda að hugsa þetta meira í einhverju svona viðspyrnuviðhorfi. En það verður dálítið skrýtið þegar á sama tíma er verið segja: Heyrðu, að öllum líkindum er enginn að fara að vera þarna með hefðbundinn atvinnurekstur sem er hluti af hverju samfélagi á næstu misserum. Ég lít svo á að það sem er þá eftir snúi þá bara að aðgengismálum fyrir þessa hafnartengdu starfsemi, hafnarstarfsemina í bænum. Er raunhæft að þau geti haldið þar áfram? Munu þau geta farið um og treyst á að nálgast sínar vörur og komist á staðinn? Og ef svo er, er þá eitthvað við þessar breyttu aðstæður sem þarf að gera sérstaklega til að þau haldi einmitt áfram þar en fari ekki eitthvert annað? Og það kallar á samtal.