154. löggjafarþing — 63. fundur,  1. feb. 2024.

norrænt samstarf 2023.

625. mál
[12:17]
Horfa

Frsm. ÍNR (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir skýrslu um vinnu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Mig langar að byrja á því að segja að rætur Norðurlandaráðs eru gamlar og langar. Þær má rekja allt aftur til ársins 1907 þegar Norræna þingmannasambandið var stofnað. Alþingi tók þátt í störfum þess frá þriðja áratugnum en það er eiginlega hægt að segja að Norðurlandaráð hafi verið stofnað 1952 þegar það varð svona formfastara en Finnland bættist ekki í hópinn fyrr en 1955. Norðurlandaráð er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum og Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka þátt í því samstarfi. Ég mun kannski koma meira inn á það síðar en þessir aðilar, og þá sérstaklega Færeyingar og Grænlendingar leggja mikla áherslu á það að vera fullgildir aðilar að þessu samstarfi.

Norðurlandaráð kemur að jafnaði saman til þingfundar tvisvar á ári þar sem við ræðum ályktanir um norræn málefni og svo á stuttum þingfundi að vori á einum degi og á hefðbundnu þriggja daga þingi að hausti. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndafunda þrisvar á ári. Það er sem sagt unnið að ýmsum norrænum verkefnum á vettvangi Norðurlandaráðs þar sem þingmenn, nefndir, flokkahópar eða landsdeildir ráðsins hafa átt frumkvæði að því, það er sem sagt hægt að leggja fram eins konar þingsályktanir þar. Mig langar að segja, á svipaðan hátt og ég nefndi hér áðan um skýrslu ráðherra um ráðherranefndina, að það kemur manni sífellt á óvart þegar maður fer inn á heimasíður eða hittir fólk sem er að vinna að þessu hvað það er rosalega mikið og gott starf í gangi. Við hefðum örugglega mörg gagn af því að þekkja betur til þess starfs.

Norðurlandaráð vinnur í nefndum. Það er forsætisnefnd og í henni á ég sæti ásamt hv. þingmönnum Oddný G. Harðardóttur og Hönnu Katrínu Friðriksson. Svo er það þekkingar- og menningarmálanefnd og þar á hv. þm. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir sæti. Í hagvaxtar- og þróunarnefnd situr hv. þm. Orri Páll Jóhannsson og í sjálfbærninefnd situr Teitur Björn Einarsson. Í velferðarnefnd situr Guðmundur Ingi Kristinsson. Núna erum við í Íslandsdeildinni með fulltrúa í öllum þessum helstu nefndum sem var ekki áður, það er býsna gott fyrir okkur.

Norðurlandaráð er pólitískur vettvangur sem fyrst og fremst vinnur út frá sínum flokkum eða flokkagrúppum þannig að það eru flokkahóparnir sem skipa fulltrúa inn í nefndirnar. En það er engu að síður mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að hafa fulltrúa í sem flestum nefndum. Ég er hér búin að nefna þá fulltrúa sem sitja í Íslandsdeild Norðurlandaráðs en auk þess þá höfum við skipað Vilhjálm Árnason sem fulltrúa Íslandsdeildarinnar í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttur hefur fyrir hönd landsdeildarinnar setið í stjórn Norræna menningarsjóðsins og ég var fulltrúi landsdeildarinnar gagnvart þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins en Oddný G. Harðardóttir mun taka við því á þessu ári.

Við í Íslandsdeild Norðurlandaráðs höfum fundað reglulega eða sjö sinnum á árinu og átt alla vega þrjá fundi með hæstv. samstarfsráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni. Auk þess höfum við tekið upp á því að funda með fulltrúum úr þingmannanefnd um norðurslóðasamstarf og Vestnorræna ráðinu. Þeir formenn munu flytja sínar skýrslur hér á eftir og því langar mig að ítreka að ég held að það sé mjög mikilvægt að þingmenn eigi samstarf þvert á þessar alþjóðanefndir. Við sem erum formenn þessara landsdeilda höfum átt sérstaka fundi og velt því fyrir okkur hvernig við getum aukið samstarfið og samnýtt krafta okkar.

Í skýrslunni er farið yfir þá fundi sem haldnir hafa verið á árinu, hverjir hafa verið okkar fulltrúar þar og hvað helst hefur verið rætt þar. Ég ætla ekki að lesa það allt upp heldur bara stikla á stóru. Á árinu 2023 var formennskan í höndum Norðmanna þannig að forseti Norðurlandaráðs var jafnaðarmaðurinn Jorodd Asphjell og varaforseti Helge Orten, þingmaður Hægriflokksins. Yfirskrift formennskuáætlunar þeirra var „Örugg, græn og ung Norðurlönd“ þar sem var fjallað um mikilvægi þess að takast á við loftslags- og umhverfisvá og standa vörð um lýðræðisleg gildi, um ógnir tengdar innrás Rússlands í Úkraínu, samstarf Norðurlanda um almannavarnir, varnarmál, aðfangaöryggi, endurnýjanlega orkugjafa, málefni ungs fólks og fleira.

Formennskuáætlunin er svona ákveðið leiðarljós í vinnunni. En auðvitað, eins og ég lýsti hér áðan, þá eru fastir fundir hjá Norðurlandaráðsþingi og þingmenn geta komið fram með ályktanir eða fyrirspurnir og annað en formennskuáætlunin er notuð til að hafa svona yfirheitin og sérstaklega einblínt á þau mál sem fram koma í henni. Ég mun kannski fara yfir okkar formennskuáætlun hér á eftir.

Við í Íslandsdeildinni höfum reynt, eins og ég segi, að nýta ferðina af því að við erum auðvitað í þeirri stöðu að í hvert skipti sem Norðurlandaráð hittist þá þurfum við í Íslandsdeildinni, við erum sjö, að fara upp í flugvél og fljúga og það tekur tíma, það kostar peninga og kolefnisspor þannig að við höfum verið með svolítið stífa dagskrá og reynt að nýta okkur það þegar við erum á fundum erlendis að heimsækja þá eitthvað af þeim stofnunum sem heyra undir Norrænu ráðherranefndina eða tengjast norrænu samstarfi með einhverjum hætti. Á janúarfundinum sem haldinn var í Stokkhólmi þá nýttum við t.d. þá ferð og heimsóttum líka Norrænu velferðarmiðstöðina.

Vorþing Norðurlandaráðs var haldið hér í Reykjavík í mars í fyrra þar sem forseti okkar, Guðni Th. Jóhannesson, ávarpaði þingið. Meginþema fundarins var orkuframboð á óvissutímum og við gátum boðið fulltrúum líka í Hellisheiðarvirkjun og skoða nýsköpunarfyrirtæki í grenndinni sem vakti mikinn áhuga og athygli meðal þingmanna.

Sumarfundir nefnda eru haldnir í Norðurlandaráði. Þar fer hver nefndin á mismunandi staði og við sem sátum í forsætisnefnd fórum til Þrándheims í Noregi. Þar var mikil áhersla á öryggismál. Við heimsóttum herbúðir sem staðsettar eru inni í fjalli og ég hef aldrei áður séð þvílíkt magn af hergögnum sem þarna var verið að sýna okkur. Við fórum á Ørland-herflugvöllinn og sáum þar herþotur sem ég kann ekki að nefna. Það er svolítið áhugavert hvað umræðan um öryggismál, ég tala nú ekki um eftir innrás Rússa í Úkraínu og umsókn Svía og Finna í NATO, hefur orðið miklu háværari í Norðurlandaráði en fyrir einhverjum árum síðan var svolítið bann við því að ræða þetta. Þarna sýndu norskir þingmenn okkur stoltir annars vegar hvernig norski herinn er búinn en ekki síður hvernig þeir eru með birgðageymslur NATO þarna inni í fjöllunum og alla þá vinnu sem er í kringum það.

Á septemberfundinum okkar sem haldinn var í Kaupmannahöfn nýttum við aftur ferðina og heimsóttum norðurslóðastofnunina Arktisk Institut, sem er í Kaupmannahöfn. Það var einmitt vegna þess að við vorum jú að fara að taka við formennsku og við höfum sett norðurslóðir á dagskrá hjá okkur.

Stærsti viðburður Norðurlandaráðs á ári hverju er auðvitað þingið sem er alla vega þriggja til fjögurra daga þing, haldið í höfuðborg þess lands sem fer með formennskuna, þannig að það var haldið í Ósló. Þar var Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sérstakur gestur þingsins. Í ræðu sinni sagði Stoltenberg m.a. að átökin á Gaza mættu ekki verða til þess að draga úr stuðningi við Úkraínu og að aðildarríki NATO yrðu að auka framlög til varnarmála og efla hergagnaframleiðslu. Hann sagði jafnframt að aðild Svía og Finna að NATO myndi styrkja samstarf norrænu landanna í varnarmálum en hann mælti gegn því að mynduð yrði norræn blokk innan samtakanna. Það er nú kannski ekki síst vegna þess að hann var spurður sérstaklega út í það. Alveg eins og ég sagði hérna áðan þá er þetta svolítið nýr tónn, maður heyrir það. Við erum auðvitað í þeirri stöðu að vera herlaus þjóð hér í Norður-Atlantshafi á meðan hinar þjóðirnar sem við vinnum með í norrænu samstarfi hafa sinn her og maður heyrir hvað tónninn er öðruvísi og þekkingin er eðlilega mun meiri hjá þingmönnum þessara landa á hernaðarmálefnum. Ég held hreinlega að við getum margt lært í þeim efnum. Er ég þó ekki að tala fyrir því að við stofnum íslenskan her en ég hef reyndar kastað því fram hvort ástæða væri til að hafa norrænan her. Það var einmitt eitt af því sem við sáum þarna í Noregi, hvað Norðurlöndin eru farin að vinna mikið saman og hve mikið er um heræfingar norrænu herjanna saman.

Á þinginu í Ósló kynnti Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, formennskuáætlun Svía í Norrænu ráðherranefndinni, þeir tóku við af okkur Íslendingum. Yfirskrift hennar er „Öruggari, grænni og frjálsari Norðurlönd“. Áætlunin speglar í megindráttum þrjár megináherslur framtíðarsýnar um sjálfbær Norðurlönd, en sérstök áhersla er lögð á hreyfanleika yfir landamæri og samþættingu. Stjórnsýsluhindranir hafa verið mjög mikið á dagskrá í Norðurlandaráði og einmitt vegna þeirrar stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar um að við ætlum að vera sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi þá er mjög eðlilegt að við horfum á landamærahindranir því að alveg eins og okkur er tamt að ræða um hversu gott og mikilvægt norrænt samstarf er þá held ég að það sé líka skoðun margra að það hafi svolítið brugðist í Covid. Við sáum það til að mynda að Danmörk varð fyrst til að loka sínum landamærum án einhvers konar samstarfs við sína helstu nágranna eða samstarfsaðila á Norðurlöndunum. Þetta er auðvitað það sem kannski sérstaklega Svíar og Danir hafa glímt svolítið við eftir þetta.

En það eru líka fleiri dæmi sem voru nefnd og eru tekin saman í skýrslu fyrir Norðurlandaráð um alls konar erfiðleika sem komu upp þegar þessi lönd fóru að grípa til þeirra neyðarráðstafana að loka landamærum í Covid. Það var mjög erfitt vegna þess hversu samþætt þetta samfélag er, fólk fer gjarnan yfir landamærin, býr á einum stað en vinnur annars staðar. Það er full ástæða til að við höldum áfram utan um þetta og það hefur verið mikil áhersla á það hjá Norðurlandaráði að leggja áherslu á þessar stjórnsýsluhindranir og afnema þær.

Samstarfsráðherra okkar, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, og utanríkisráðherra mættu á þingið og svöruðu spurningum þingmanna í Ósló. Þar mætti líka Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, auk þess sem Birgir Ármannsson, forseti þingsins, var þarna á staðnum. Þetta var auðvitað stór og mikill viðburður og ég held að það hafi margt gott komið út úr þessu þingi og samstarfið verður þéttara með þessu.

Þá skulum við líka muna að á þessu ári verður Norðurlandaráðsþing haldið hér í Reykjavík og við erum í óðaönn að undirbúa okkur undir það.

Í lok þingsins var ég kosin forseti Norðurlandaráðs og Oddný G. Harðardóttir varaforseti. Þar kynntum við formennskuáætlun okkar sem ber heitið „Friður og öryggi á norðurslóðum“. Við leggjum áherslu á þetta í formennskuáætluninni og ég held að það sé mjög mikilvægt að við erum að fá vini okkar á hinum Norðurlöndunum til að beina sjónum í auknum mæli til norðurslóða og þess hvað öryggismál eru mikilvæg þar. Þar eigum við öll það sameiginlegt að það er skýrt skrifað inn í norðurslóðastefnu allra þessara ríkja hversu mikilvægt er að halda þessu svæði sem lágspennusvæði. Það er alveg skýrt að friður og öryggi á norðurslóðum er okkur öllum alveg ofboðslega mikilvægt. Ég ætla að ítreka samt að þegar ég ræði um öryggismál þá er ég að ræða um öryggismál í mjög víðu samhengi og ekki síst ógnina af bráðnun jökla, umhverfisógnina sem á sér stað á þessu svæði þannig að við erum að tala um samfélagsöryggi og bara öryggi í mjög víðu samhengi.

Þá leggjum við líka áherslu á tungumál og mikilvægi þess að það verði rætt frekar. Það er jú þannig að í Norðurlandaráði getum við notað okkar móðurmál en það er full ástæða til að ræða þetta frekar. Það kemur kannski sérstaklega inn á stöðu Grænlands í þessu samstarfi þar sem Grænlendingar eru líka farnir að óska eftir því að geta notað sitt móðurmál en hafa ekki þann rétt eins og staðan er í dag.

Mannréttindi eru að sjálfsögðu ofarlega á blaði líka í okkar formennskuáætlun þannig að það er margt undir og ég vona að við fáum fleiri tækifæri til að ræða það og sýna þingheimi hér fram á það hvernig við munum vinna með okkar formennskuáætlun.

Mig langar að taka það líka fram að í tengslum við þing Norðurlandaráðs er hefð fyrir því að vera með verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs sem er yfirleitt mjög hátíðleg athöfn. Að þessu sinni áttum við einn vinningshafa sem var Rán Flygenring sem hlaut barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir myndabókina Eldgos. Við vorum auðvitað mjög stolt af því. Eitt af því sem er kannski líka ástæða til að nefna er að við erum að vinna með aðeins breytt fyrirkomulag á því hvernig við munum veita þessi verðlaun. En að sjálfsögðu munu verðlaun Norðurlandaráðs verða veitt og þau verða veitt hér á Íslandi í vikunni sem við höldum okkar þing.

Það er auðvitað ýmislegt annað sem fram kemur í þessari skýrslu um okkar störf, alþjóðastörfin. Við höfum mikið unnið með Eystrasaltsþinginu og norðurslóðamál hafa alltaf verið hluti af samstarfi Norðurlandanna en við erum að setja aukna áherslu á það. Svo gæti ég haldið heila ræðu um Helsingfors-samninginn og þá vinnu sem þar er undir en ég ætla að láta hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson það eftir því að hún er okkar fulltrúi í þeirri nefnd og þar er margt mjög áhugavert að gerast og gerjast.

Mig langar þó að nefna hér sérstaklega stöðu Grænlands í norrænu samstarfi. Í ræðu á Norðurlandaráðsþinginu í Ósló sagði Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, og ég ætla að kalla hann forsætisráðherra Grænlands, að norrænt samstarf væri eins og átta manna vinahópur þar sem aðeins fimm fengju að vera með á mikilvægustu vinafundunum. Hann sagði að fyrirkomulag samstarfsins væri ekki í takt við tímann og margt þyrfti að bæta. Hann sagði að ef ekki yrði að gert myndu Grænlendingar þurfa að endurskoða þátttöku sína í samstarfinu.

Þetta eru alvarleg orð sem ég held að allir hafi tekið mjög til sín og þá er boltinn kannski svolítið hjá okkar ágætu nefnd sem er að fara yfir Helsingfors-samninginn. En það er alveg ljóst að við í formennskutíð okkar í Norðurlandaráði ætlum að horfa sérstaklega til Grænlands. Við erum auðvitað með norðurslóðir sem yfirheiti og áherslu hjá okkur og Grænland er örugglega besta dæmi um ríki Norðurlandanna sem er norðurslóðaríki þar sem áskoranir eru svo sannarlega til staðar en vissulega líka tækifæri. Ég og varaforsetinn munum leggja mikla áherslu á að heyra einmitt þessar áherslur Grænlendinga. Það er svo margt sem mig langar að segja meira um þetta, en ég held að ég nái því ekki.

Ég ætla þá að fara í það sem ég var aðeins búin að fara yfir varðandi formennskuna, við erum sem sagt með formennskuna á þessu ári og ásamt formennskuáætluninni okkar sem við munum auðvitað vinna sérstaklega með þá er það líka von mín að sem flestir þingmenn sem sitja í Íslandsdeildinni geti nýtt þetta ár vel til að leggja fram mál, leggja fram fyrirspurnir en ekki síst til að nýta þetta samstarf til að efla sig líka sem íslenska þingmenn. Með þessu á ég við að við getum með einhverjum hætti reynt að samtvinna meira þessi störf okkar þannig að þegar þingmenn þurfa að fara af landi brott og hverfa frá störfum hér þá nýtist þessi vinna þeirra áfram. Og vegna þess að gervigreind hefur til að mynda verið svolítið í umræðunni í þessum þingsal og þingmenn með tillögur og annað um það þá vil ég geta þess að á þingi okkar í næstu viku sem fer fram í Svíþjóð verður sérstakur hliðarviðburður sem fjallar sérstaklega um gervigreind. Það eru Svíar sem standa fyrir því og þar verður umfjöllun einmitt um þessi lög Evrópusambandsins og hvernig við sem þingmenn og löggjafi þurfum að bregðast við. Við í forsætisnefnd verðum með sérstaka umræðu um alþjóðlega glæpastarfsemi og hvernig hún flæðir yfir landamærin og þar höfum við fengið fulltrúa frá sænska ríkislögreglustjóranum til að fara yfir stöðuna í Svíþjóð og ég vonast eftir góðu samtali þarna. Við munum síðan á þingi okkar í Færeyjum vera með öryggismálin sérstaklega á dagskrá. Ég mun örugglega nýta tækifærið og koma hér upp t.d. í störfum þingsins til að reyna að upplýsa þingheim um það þá vinnu sem fram undan er. — En nú er ég runnin út á tíma.