131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Fjárhagslegur aðskilnaður í rekstri útgerðar og fiskvinnslu.

23. mál
[15:30]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ótrúlegt að heyra hvílíka vantrú hv. þingmaður hefur á hinum stóru, öflugu sjávarútvegsfyrirtækjum, að þau geti ekki þolað að sitja við sama borð og önnur fyrirtæki í landinu þegar kemur að samkeppni um fiskinn á markaðnum.

Ég vil líka leiðrétta það, af því að hv. þingmaður talar um að þeir haldi uppi hæsta verðinu á markaðnum. Hverjir hafa tryggt hæst verð á markaði á undanförnum árum? Það eru fyrirtækin sem við vorum að tala hér um áðan, fiskvinnsla án útgerðar. Þeim hefur tekist í gegnum mörg ár að tryggja afhendingu til viðskiptavina sinna erlendis, t.d. Toppfiskur hér í Reykjavík sem hefur verið um 15 ára skeið í þessum útflutningi. Þeir eru í raun og veru sporgöngumenn, þeir hjá stóru fyrirtækjunum koma í kjölfarið. Þegar búið var að vinna þessa markaði komu stóru fyrirtækin á eftir. Ég er sannfærður um að markaðurinn muni sjá til þess að hægt verði að stjórna veiðum í samræmi við bestu þarfir.