131. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2005.

Efling fjárhags Byggðastofnunar.

468. mál
[19:05]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég má til með að taka til máls undir þessum lið þó að áliðið sé. Ég hef aldrei verið hrifinn af Byggðastofnun eða starfi hennar, tel að hún sé mikil meinsemd fyrir landsbyggðina og hef fært fyrir því rök og sú skoðun mín stendur enn.

Þegar Byggðastofnun veitir lán eða fjárfestir í hlutafélögum gerir hún það vegna þess að enginn annar vill gera það, sem segir mér að sá atvinnurekstur sem hún er að lána til eða fjárfesta í er ekkert sniðugur, hann gengur bara ekkert upp. Annars mundu aðrir fjárfesta í honum. Annars væri til nóg fjármagn til að fjárfesta — eins og sýnir sig á landsbyggðinni víða þar sem fjármagn hefur streymt í stórum stíl til útgerðarfyrirtækja, stórra og burðugra útgerðarfyrirtækja á landsbyggðinni, frá Reykjavík, frá lífeyrissjóðunum, frá fjármálamarkaðnum. Þar sem er arðsemi, þangað streyma peningarnir. Byggðastofnun er einmitt að leita að fyrirtækjum sem ekki hafa arðsemi og byggja upp arðlítil fyrirtæki sem aldrei munu geta staðist vegna þess hvernig lagt er upp með dæmið.

Þetta er einn vandinn, að vera að hvetja menn til atvinnurekstrar sem ekki er góður í eðli sínu, ekki er arðsamur í eðli sínu. En þetta er ekki aðalvandinn, þetta er ekki það versta, það væri í lagi með þetta. En talið við þau fyrirtæki sem eru vel rekin á staðnum, talið við fyrirtækin sem hafa fengið hlutafé en fá ekki styrk frá Byggðastofnun af því að þau ganga of vel. Þau þurfa endalaust að keppa við fyrirtæki sem fá styrki frá Byggðastofnun.

Ferðamannaþjónustan, þar er fullt af góðum fyrirtækjum, hótel sem eru rekin vel og allt það. En þau eru endalaust, frú forseti, að keppa við fyrirtæki sem fá styrki á styrki ofan frá Byggðastofnun. Þetta er skaðlegt, þetta er mjög skaðlegt og ég vara við því að menn fari út á þessa braut, ég er margbúinn að vara við því. Ég held meira að segja að Byggðastofnun sé einmitt eitt af vandamálum landsbyggðarinnar og kannski er það ekkert skrýtið að eftir að hún var sett á laggirnar hefur fólksstraumurinn aldrei verið meiri til höfuðborgarsvæðisins.

Ég get hins vegar fallist á að hún gæti haft eitthvert ráðgjafarhlutverk. Það er svo sem allt í lagi ef hún passar sig að fara ekki mjög geyst í því.