132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[15:06]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hækka eða lækka, minnka eða aukast, það er vinsæl spurning í þingsölum, sérstaklega þegar er verið að tala um tekjur ríkissjóðs, gjöld sem ríkissjóður leggur á eða skatta, því að við höfum farið í gegnum umræðu um skattana hér, hvort þeir hafi verið að hækka eða lækka á Íslandi og menn hafa ekki getað verið á eitt sáttir um það vegna þess að sumir eru að tala um ákveðinn hóp manna þar sem skattar hafa jú lækkað, en aðrir eru tala um annan hóp manna þar sem skattar hafa jú sannarlega hækkað.

Að sjálfsögðu finnst mér það virðingarvert af þessum fimm ungu þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að þeir beri hag nýstofnaðra fyrirtækja þessa lands fyrir brjósti og það megi ekki kosta 165 þús. kr. að stofna fyrirtæki því að þessi fyrirtæki þurfi að greiða margan annan kostnað og séu óburðug og þurfi að komast af stað. Ef þetta eru rökin fyrir því að lækka 165 þús. kr. í 40 þús. kr. þá vona ég að hv. þingmaður sé stuðningsmaður okkar sem viljum að þeir einstaklingar sem eiga erfitt með að greiða gjöld í ríkissjóð vegna þess að þeir eiga ekki fyrir nauðþurftum, við erum ekki að tala um að þeir eigi ekki fyrir rekstri fyrirtækja sinna eða ýmsum gjöldum í sambandi við það að stofna fyrirtæki, heldur að þeir eigi einfaldlega ekki fyrir daglegum útgjöldum. Við höfum ekki fengið þennan hv. þingmann sem hauk í horni við að lækka álögur á það fólk. (Gripið fram í.) En aumingja fyrirtækin sem þurfa að greiða 165 þús. kr.

Ég sé að þingmanninum er órótt og það er svo sem eðlilegt þegar bent er á að hann leggur lykkju á leið sína til að reyna að minnka útgjöld fyrirtækja sem stofna þarf en hefur aldrei verið hér til staðar fyrir það fólk sem á ekki fyrir nauðþurftum og þarf eftir sem áður að greiða talsvert mikil gjöld í ríkissjóð.