135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

störf þingsins.

[13:45]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur verið um þetta mál en ég verð þó að játa að ég er í rauninni litlu nær um stöðu þess. Mér þykir í rauninni það hafa verið staðfest sem mér bauð í grun, að lítil samstaða er um þetta mál.

Mér þykir svolítið merkilegt, hafi ég skilið ræðu hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur rétt, ef það er stefna samgöngunefndar að ekkert skuli aðhafst í þeim rannsóknum sem ræddar voru á síðasta fundi samgöngunefndar með Ægisdyramönnum því á sama tíma liggur fyrir loforð fjármálaráðherra um að leggja fé til þeirra rannsókna. Þarna er því nokkuð augljóst að hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gjörir. Það er ekki gott við stjórnun mála og það er óþægileg staða sem Vestmannaeyingar eru settir í.

Það er rétt sem komið hefur fram að kostnaðarhugmyndir um jarðgöng eru mjög mismunandi. Ef það kæmi í ljós eftir þessar rannsóknir að þetta væri mun ódýrara en talið hefur verið, eru menn þá að tala um að setja frestinn eða framkvæmdirnar við Bakkafjöru aftar í forgangsröðina eða jafnvel að slá þær af? Þetta þarf allt að liggja fyrir. Það þarf að liggja fyrir hvað stjórnvöld ætlast fyrir með því að klára þessar rannsóknir.

Ég fagna því vissulega að það skuli ráðist í þær en ég held að stefnan þurfi að vera miklu skýrari og ég held að það þurfi að vera miklu ljósara hvort þetta er yfirleitt eitthvað sem menn eru að ræða eða hvort það er verið að stunda þessar rannsóknir bara til þess að (Forseti hringir.) eiga fyrir framtíðina.