135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[16:38]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni að þetta er atriði sem þarf að skoða sérstaklega með sjálfstæði sveitarfélaga í huga. Þegar ég les upp lagaákvæðið eins og það hljómar dreg ég þetta alveg sérstaklega fram, af því að ég tel að þetta þurfi að skoða sérstaklega. Ég er að draga það fram að samkvæmt frumvarpinu er sveitarfélögum skylt að fara eftir landsskipulagi. Ég heyri að hv. þingmaður dregur fram að það megi alveg efast um að það sé rétt leið, og það er rétt að alveg má efast um það en þetta þarf nefndin að skoða. Ég ætla ekki að kveða upp úr um það hér og nú að kveða eigi svona skýrt á um þetta atriði. Það er bara spurning hvað hafa þarf hlutina skýra til að þeir fari að virka eins og við ætlumst til.

Ef það verður almenn stefna að landsskipulagið verði svona og sveitarfélögin skuli hafa það til hliðsjónar, hvað þýðir það? Geta þau þá farið á skjön við landsskipulagið? Hver sker úr um það? Þetta er eitthvað sem ég held að umhverfisnefnd verði að skoða alveg sérstaklega. Þetta hefur verið þannig að sveitarfélögin hafa hið almenna skipulagsvald, þó ekki alveg sjálf á miðhálendinu, þar hefur það verið samvinnunefndin, það hefur verið miklu meira samráð þar og nefndin hefur að vissu leyti miðað við hvernig textinn liggur í frumvarpinu, unnið sem sveitarstjórn með fulltrúum frá aðliggjandi sveitarfélögum. Ég tel að þetta sé viðkvæmasta atriðið sem við ræðum í þessu frumvarpi, a.m.k. miðað við breytingarnar að öðru leyti í frumvarpinu. Ég tel að nefndin þurfi að íhuga mjög vel hvað sé eðlilegt að ganga langt. Í frumvarpinu er gengið mjög langt af því að sveitarfélögunum er gert skylt að fara eftir landsskipulaginu, en það má líka færa rök fyrir því að einhvers staðar þurfi að draga línuna skýrt (Forseti hringir.) til að landsskipulag hafi einhver áhrif yfirleitt.