135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[17:01]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þannig háttar til að þegar við eigum orðastað, ég og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, þá lendum við oft í umræðum um sveitarstjórnarmál. Til þess að svara orðum hans hér — í ljósi orðaskipta okkar fyrir tveimur dögum ítreka ég að ég hef engan áhuga á að gera hann sérstaklega dapran — þá tel ég að stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi ekki unnið með hagsmuni stærri sveitarfélaga í huga eða forgang og ekki heldur hagsmuni smærri sveitarfélaganna. Þetta er eilífðarumræða og verður innan samtaka þegar fulltrúar þeirra sem aðild eiga að samtökunum eru allt frá því að vera með 50 íbúa á bak við sig upp í 110–120 þús. íbúa. Þarna verður eilíf togstreita og átakapunktur.

Í mínum huga er allmikill munur á því að stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga sé samnefnari sveitarfélaga í landinu og geti átt kost á því að tilnefna fulltrúa í sameiginlegar stjórnir ríkis og sveitarfélaga. Það er eitt og ég geri ekki miklar athugasemdir við það. Ég get alveg tekið undir þau sjónarmið sem koma fram að ákveðin hætta er á því að þetta fari að virka þyngra og sterkara en á að vera. En grundvallarmunur er á slíku verki, að skipa fulltrúa til verka í sameiginlegum verkefnum, eða hinu að fela frjálsum samtökum eins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga ákvörðunarvald í málefnum þar sem sjálfsforræði sveitarfélaga er í mínum huga 100% og á að vera óhreyft. Að mínu mati hafa samtök eins og Samband íslenskra sveitarfélaga þar ekkert forræði yfir málum sveitarfélaga.