135. löggjafarþing — 64. fundur,  12. feb. 2008.

skipulagslög.

374. mál
[17:05]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri hv. þm. Kristin H. Gunnarsson stundum dapran en verð að segja að hann gerir mig ætíð glaðan þegar hann kemur hingað upp. Sumt af því sem hann missir út úr sér vekur mér hlátur. Sú ræða sem hann flutti hér er dæmi um það. Að bendla þetta verklag sveitarfélaganna í landinu við svartnættið. Það er töluverð sleggja sem leggur málin upp með þeim hætti. Ég skal alveg virða þá skoðun en það er langan veg frá því að ég sé sammála þessu sjónarmiði. Það er alls ekki svo.

Hinn kosturinn á móti þessu fyrirkomulagi hlýtur þá að vera sá að kjósa með einhverjum hætti til stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það er önnur umræða og við skulum alveg taka hana. Þá spyr maður hvernig fara eigi að því. Verður þá ekki að fara að semja um atkvæðavægi við kosninguna o.s.frv.? Ég tel að það þurfi ekkert að vera betri kostur. Ég tel það fyrirkomulag sem sveitarfélögin hafa mótað varðandi Samband íslenskra sveitarfélaga gott. Ég tel að hlutverk Sambands íslenskra sveitarfélaga í því efni sem við ræðum hér, frumvarpi til nýrra skipulagslaga, eigi fyrst og fremst að vera að búa til eitthvert umhverfi fyrir sveitarfélögin í landinu til að þau geti nálgast þetta sameiginlega verkefni með ríkisvaldinu ef sú yrði niðurstaðan að frumvarpið með ákvæðum um landsskipulagsáætlun verði samþykkt.