138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:21]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Mér leikur forvitni á að vita hvað þingmaðurinn leggur til að við gerum. Er hann þeirrar skoðunar að leita beri dómstólaleiðarinnar í þessu máli? Við erum sammála um að þetta er ekki skemmtilegt mál. Það er ekki gaman fyrir okkur að takast á við þessar eftirhreytur af hruninu sem við hvorugur tókum þátt í. Við vorum ekki á þingi þegar það helltist yfir okkur. En nú spyr ég hv. þingmann: Hvaða leið leggur hann til að við förum? Er það dómstólaleiðin, að við tökum þá áhættu að þurfa að standa skil á allri innstæðunni eða um 600–700 milljörðum til viðbótar? Telur hann, eins og mér heyrðist á einhverjum fulltrúum í hans flokki, að leita beri leiða til að setjast niður á ný með ESB? Það er reyndar athyglisvert að þingmenn Framsóknarflokksins virðast hafa ofurtrú á ESB, ég veit ekki betur en þeir séu flestir á móti því sambandi.

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson ýjaði að því í ræðu sinni fyrr í dag að höfnun Icesave fæli frá erlenda fjárfestingu og viðhaldi vantrú á Íslandi á fjármálamörkuðum erlendis og að samþykkt Icesave feli í sér skammtímaábata. Er hv. þingmaður sammála hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni í þessu mati á því hvaða afleiðingar Icesave-samkomulagið hefur?