140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[17:18]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann fullyrti að í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar væri slegið úr og í hvað varðar afstöðu til þess hvort Alþingi hafi vald til að afturkalla ákæru á hendur ráðherra.

Mig langar í ljósi þess að vitna beint til þess sem segir í næstsíðasta málslið á bls. 2, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur að í ljósi þess að ákæruvaldið er í höndum Alþingis hafi það formlegt vald til að afturkalla ákæru á hendur ráðherra fyrir landsdómi en telur það hins vegar sjálfstætt álitaefni hvort og á hvaða forsendum Alþingi geti nýtt það vald.“

Ef litið er hinum megin á opnuna kemur í ljós hvað þetta „hvort“ þýðir í setningunni um að Alþingi hafi þetta formlega vald en það sé sjálfstætt álitaefni „hvort“ það eigi að gera það. Og hvað skyldi það vera? Jú, það þurfa að vera efnislegar ástæður, efnisleg sjónarmið til að það sé unnt, eins og skýrt er á síðunni á móti. Síðan er það álitaefni á hvaða forsendum Alþingi geti nýtt það vald líka skýrt hinum megin á opnunni, sem sé að slík tillaga eigi að berast frá saksóknara, sem ekki hefur gerst.

Þetta eru þær forsendur sem meiri hlutinn gefur sér og það er alveg ljóst að við teljum ekki heimilt að gera allt sem ekki er bannað. (Forseti hringir.) Það þurfa að vera efnislegar ástæður og það þarf að koma fram formleg ábending um að þær séu til staðar til að breyta ályktun Alþingis.