141. löggjafarþing — 64. fundur,  14. jan. 2013.

framgangur ESB-viðræðna.

[15:04]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Sem endranær er erfitt að henda reiður á málflutningi sérstaklega sjálfstæðismanna í þessu máli. Á annað borðið hafa þeir haldið því fram mjög lengi að það sé svoddan ógnarhraði á þessari umsókn að þeim sjálfum verði hverft við. Það er það sem menn hafa kvartað undan, að það sé svo mikill hraði og mikill skriður á umsókninni. Svo kemur hv. formaður Sjálfstæðisflokksins hingað og segir: Vill ekki bara utanríkisráðherra viðurkenna að þetta sé allt og hafi verið í hægagangi?

Ef það hefur verið svona í hægagangi, af hverju hefur hann þá komið hingað sjálfur og sent sína menn upp til að kvarta undan því hvað er mikill hraði á þessu? Svo getur hv. þingmaður bara gert það upp með sjálfum sér hvort það sé til marks um hægagang á málinu að sex kaflar voru opnaðir í desember sl. á ríkjaráðstefnu, þar af þrír sem voru giska þungir, erfiðir og snúnir að opna og sem hv. þingmaður veit að munu verða mjög erfiðir.

Mér er annt um þetta ferli, ég dreg enga dul á það. Ég vildi, ef hægt væri, skapa eins mikla sátt um það og unnt er. Ég hef sagt að ég teldi óæskilegt fyrir ferlið og fyrir Evrópumálið, af hreinskilni hef ég sagt það, ef það yrði bitbein í kosningum. Þetta hefur hv. þingmaður örugglega heyrt mig segja oftar en einu sinni og þess vegna tel ég það ferlinu til farsældar að fara í hægagang með þann part sem til dæmis snýr að þinginu, þ.e. samningsafstöðu. Aðkoma þingsins hefur einkum lotið að því að fjalla um það og að minnsta kosti vil ég þannig fyrir mitt leyti stuðla að því að draga úr því að það verði að einhverju bitbeini í kosningum.

Ég tel þetta farsæla niðurstöðu fyrir ferlið og fyrir hv. þingmann. Eru það ekki akkúrat hv. þingmaður og fleiri sem hafa sagt (Forseti hringir.) að þeir vildu fyrst og fremst fá tóm til að tala um efnahagsmál og verk ríkisstjórnarinnar? Hann fær það.