144. löggjafarþing — 64. fundur,  5. feb. 2015.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum og málefni fatlaðs fólks.

454. mál
[19:25]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Þetta er mjög áhugaverður punktur. Það eru ekki allir sem vilja sjá um þetta sjálfir. Ég velti fyrir mér félagasamtökum sem sinna svo mikilvægu hlutverki sem er „non-profit“. Þau geta tekið að sér verkefni sem ríkið ákveður að útvista og gera það oft mjög vel. Ég kasta því bara fram án ábyrgðar, getum við sagt, hvort einhverja aðstoð sé að fá hjá félagasamtökum.

Varðandi kostnaðinn sem hv. þingmaður kom inn á þá minnir mig að fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, ég man það þó ekki alveg, hafi einhvern tíma í fjárlagaumræðunni sagt að það væri talið að úrræðið væri 20% dýrara. Mér finnst óþægilegt þegar ég fæ greininguna ekki nákvæmlega. Ég held að það væri mjög mikilvægt að kalla eftir því þegar verið er að skoða þetta. Það er nokkuð sem við í fjárlaganefndinni ættum kannski að gera. Á hverju byggir þetta? Er þetta einhver tala út í loftið? Er þetta 20% dýrara en ódýrasta úrræðið eða hvað? Ég held að Svíar hafi rannsakað þetta. Eins og við komum inn á þá er þetta flókið reikningsdæmi. Auðvitað þurfum við að vita hvað við erum að fá fyrir peninginn en ég held samt að þetta sé ódýrasta leiðin að bestu þjónustunni. Ég held að sambærileg þjónusta geti ekki verið ódýrari eða gerð með öðrum hætti en þessum.