150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

niðurgreiðsla flugfargjalda ungmenna milli Vestur-Norðurlanda.

512. mál
[14:31]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. framsögumanni fyrir stutt og skilmerkilegt nefndarálit, sömuleiðis utanríkismálanefnd fyrir að ljúka umfjöllun um þetta efni svo fljótt og með svo jákvæðum hætti. Við þekkjum það að frá örófi alda hafa samskipti og ferðalög verið allnokkur á milli Grænlands, Íslands og Færeyja, talsverð umferð fólks og farenda í ýmsum erindum á sínum farkostum sem sigldu sína leið.

Á okkar tímum hefur síður en svo dregið úr því að fólk ferðist um heiminn. Á örfáum klukkustundum er hægt að þvera gjörvalla heimsbyggðina eins og við þekkjum. Þrátt fyrir að Ísland, Færeyjar og Grænland hafi einu sinni tilheyrt sama konungsríkinu hafa samskipti á milli landanna ekki aukist að sama skapi. Þau hafa vaxið, en ekki eins og vænta mátti, með samneyti nágranna, aukinni ferðatækni og stórauknum ferðalögum almennt. Það er áhyggjuefni að bara lítill hluti ungmenna í löndunum þremur hefur haft tækifæri til að ferðast til þessara nágrannalanda sinna og kynna sér menningu þeirra. Það stafar fyrst og fremst af kostnaðarlegum ástæðum. Þetta eru næstu nágrannar okkar, bæði Grænlendingar og Færeyingar, en þetta er samt veigamesta ástæðan.

Til að tryggja áframhaldandi gott samstarf milli landanna um sameiginlega hagsmuni er nauðsynlegt að gera vestnorrænum ungmennum kleift að kynnast nágrannalöndum sínum, menningu þeirra og íbúum. Þetta er álit okkar í Vestnorræna ráðinu en flugfargjöld milli vestnorrænu landanna og innan þeirra eru talsvert há. Þetta á sérstaklega við um Grænland enn sem komið er. Þessu er töluvert öðruvísi farið með Færeyjar. Eins og staðan er nú hafa ungmenni á Vestur-Norðurlöndum tækifæri til að sækja um styrki til ferðalaga á vegum íþróttafélaga, skóla eða menningarhópa. Í því samhengi er vert að nefna Grænlandssjóð og NATA en hins vegar geta ungmenni sem ferðast á eigin vegum milli landanna þriggja ekki sótt um styrki.

Ferðaþjónusta er reyndar í örri þróun í þessum löndum öllum. Við þekkjum þróunina hér. Í Færeyjum er allt þegar á fullri ferð. Stórvaxandi fjöldi ferðamanna sækir eyjarnar heim á hverju misseri og á því sviði eru Færeyingar að glíma við þróun og þessa aukningu með mjög áhugaverðum og eftirtektarverðum hætti, allt öðrum hætti en hjá Íslendingum. Flugrekstur er vaxandi og a.m.k. tvö stór hótel eru í byggingu í Þórshöfn í Færeyjum. Grænlendingar eru hins vegar í annarri stöðu. Þar sem landið er án vegakerfis eru flugvellir mikilvægasti þátturinn í framtíðarsamgöngum Grænlands.

Flugvöllurinn í Kangerlussuaq er sá eini á Grænlandi fyrir stórar farþegaþotur en hann hefur þann stóra ókost að vera fjarri þéttbýlisstöðum. Framkvæmdir eiga að hefjast strax í haust við tvo stóra og nýja millilandaflugvelli og framkvæmdir eru hafnar í Nuuk og í Ilulissat. Báðir flugvellirnir eiga að vera tilbúnir í árslok 2023. Flugvallagerðinni sem er áætlað að kosti 67 milljarða íslenskra króna er lýst sem stærstu innviðauppbyggingu í sögu Grænlendinga. Flugvallagerðin er talin forsenda fyrir stóreflingu ferðaþjónustu í landinu en að því stefna Grænlendingar hröðum skrefum. Þeir stefna líka að því að efla innanlandsflugið, þeir ætla að byggja upp 11 nýja innanlandsflugvelli, bæði á austur- og vesturströnd.

Herra forseti. Grænlendingar hafa lýst því yfir að þeir ætli að feta sig inn á braut ferðaþjónustu í meira mæli, skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið og styrkja samgöngur í lofti við nágrannalöndin. Enn fremur eru uppi áætlanir um stórbættar samgöngur á sjó, m.a. með aðkomu íslenskra skipafélaga. Endurbætt hafnaraðstaða í Nuuk gefur jafnframt mikla möguleika að mati heimamanna varðandi móttöku skemmtiferðaskipa. Tónninn sem sleginn er í þessari tillögu, virðulegi forseti, er að samskipti unga fólksins á vestnorræna svæðinu vaxi, að þau leiði til aukins og gagnkvæms áhuga og þekkingar og persónulegra kynna ungmenna af nágrannalöndum okkar og nágrannaþjóðum.

Útfærslan í tillögunni og farvegur hennar hefur ekki verið mótaður nákvæmlega. Hann getur verið með ýmsu móti en tillögunni er beint til stjórnvalda og fær nú sambærilega umfjöllun og hér í Lögþingi Færeyinga og í Inatsisartut á Grænlandi. Vonandi verður það gert með jafn jákvæðum hætti og hér og að við náum því takmarki að efla samskipti ungmenna í vestnorrænu þjóðunum.