150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

viðhald og varðveisla gamalla báta.

308. mál
[14:58]
Horfa

Flm. (Guðjón S. Brjánsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um viðhald og varðveislu gamalla báta. Undanfarna tvo áratugi hefur ríkt grafarþögn, má segja, um málefnið, þetta mikla hagsmunaatriði, varðveislu hluta af atvinnusögu og menningararfi okkar. Það eru u.þ.b. tveir áratugir síðan flutt var tillaga á Alþingi sem gengur út á svipað efni. Nú ber svo við að fyrir fáum dögum var borin upp tillaga um svipað efni hér í þinginu og það hefur því myndast lítil biðröð við ræðustól Alþingis til að tala fyrir varðveislu og viðhaldi gamalla báta og það er vel. Að vísu er sú tillaga með dálítið öðrum brag. Hún gerir ráð fyrir að ráðherra skipi einn starfshópinn enn. Hér er það ekki gert. Við viljum ekki horfa á menningararf bátanna grotna enn frekar niður meðan starfshópur situr að störfum. Við viljum að tveir ráðherrar taki til sinna ráða og láti verkin tala. Það verður gert til ákveðins tíma og sérstaðan er líka sú að draga atvinnulífið, hagsmunaaðila, að málinu því að þeim er málið skylt. Tillagan hljóðar á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra að beita sér fyrir því að stofnaður verði sjóður sem hafi það hlutverk að halda við og varðveita gömul skip og báta. Sjóðurinn njóti árlegra framlaga af fjárlögum auk þess sem stuðlað verði að þátttöku starfsgreina sjávarútvegsins í verkefninu. Sjóðurinn starfi á grundvelli áætlana sem gerðar verði til fimm ára í senn og reglur um úthlutanir til verkefna, varðveislugildi o.fl. komi fram í samþykktum sjóðsins. Forsætisráðherra flytji Alþingi tíðindi af framgangi ályktunarinnar fyrir þinglok vorið 2020.“

Hér er vissulega bjartsýni ráðandi að hæstv. forsætisráðherra takist að koma þessu vel á veg fyrir þinglok í vor en um það mun ekki verða ágreiningur, málið er aðallega það að þetta brýna verkefni fái fyrirgreiðslu. Í greinargerð segir að þingmál hafi áður verið lögð fram með það að markmiði að marka sérstakan tekjustofn til þess að tryggja varðveislu og viðhald eldri skipa og báta. Þingsályktunartillaga þessa efnis var lögð fram á 140. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Tillagan var endurflutt á 141. löggjafarþingi og aftur án árangurs. Nú er enn lögð fram þingsályktunartillaga, nokkuð breytt, en hnígur að hinu sama.

Þá er rétt að geta þess að á 125. þingi, veturinn 1999–2000, lögðu fimm þingmenn allra flokka, sem þá áttu sæti á Alþingi, fram frumvarp til laga um að Þróunarsjóður sjávarútvegsins fengi það viðbótarhlutverk að veita byggðasöfnum og sjóminjasöfnum styrki til varðveislu skipa. Í máli flutningsmanns tillögunnar, Jóns Bjarnasonar, komu m.a. fram þau viðhorf að eðlilegt væri að atvinnuvegurinn tæki jafnframt þátt í starfinu og væri ábyrgur fyrir sögu sinni og menningu. Afgreiðsla málsins á Alþingi varð sú að frumvarpinu var breytt í meðferð sjávarútvegsnefndar í nýja þingsályktunartillögu sem flutt var af sjávarútvegsnefnd um varðveislu báta og skipa. Tillagan var síðan samþykkt af Alþingi með 49 samhljóða atkvæðum. Með þingsályktun þessari var ríkisstjórninni falið að undirbúa tillögur um hvernig staðið skyldi að varðveislu gamalla skipa og báta og móta í því sambandi reglur um fjármögnun sem Þróunarsjóður sjávarútvegsins tæki m.a. þátt í. Engar tillögur eða reglur í samræmi við staðfesta ákvörðun Alþingis hafa hins vegar litið dagsins ljós, 20 árum síðar.

Það var svo á 131. þingi, veturinn 2004–2005, að þáverandi sjávarútvegsráðherra flutti frumvarp um breytingu á lögum um fyrrnefndan Þróunarsjóð sjávarútvegsins sem miðaði að því að leggja sjóðinn niður. Eignum umfram skuldir skyldi ráðstafað til Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og andvirði þeirra varið til hafrannsókna. Minni hluti sjávarútvegsnefndar lagði til með breytingartillögu að eignir umfram tilgreinda upphæð færu til ríkissjóðs og yrði ráðstafað til varðveislu gamalla báta og skipa. Það væri enda í samræmi við vilja Alþingis frá árinu 2000 og þá þingsályktun sem þar var samþykkt samhljóða.

Nærfellt tveir áratugir hafa því liðið án þess að stjórnvöldum hafi tekist að koma vernd og varðveislu gamalla báta og skipa í örugga höfn þrátt fyrir talsverða viðleitni þingheims. Við verðum að hafa það í huga að þetta er einn grundvallarþátturinn í íslenskri atvinnu- og menningarsögu. Sambærileg vernd er áhersluatriði meðal nágrannaþjóðanna og miklu kostað til. Norðmenn eru að reisa nýtt safn á safnasvæði sínu í Bygdøy í Ósló, undir þeirra skipa- og bátaarf, sem er stórmerkilegur og gamall. Þeir ætla að verja u.þ.b. 2 milljörðum norskra króna til að byggja upp þessa aðstöðu í Ósló. Það er auðvitað viðurkennt, herra forseti, að hverri þjóð ber að varðveita sögu sína og menningararf. Hér á landi er það Þjóðminjasafn Íslands sem samkvæmt lögum er „höfuðsafn á sviði menningarminja“. Því ber „að stuðla sem best að varðveislu íslenskra menningarminja og miðla sögu þjóðarinnar“. Þessu hlutverki sinnir Þjóðminjasafnið með metnaðarfullum hætti en af miklum vanefnum. Aðstæður eru á þann veg að safninu er tæplega fjárhagslega kleift að tryggja varðveislu eigin fábreytta bátakosts.

Herra forseti. Söfnin í kringum landið, sem sinna mörgum og mismunandi verkefnum til varðveislu á minjum og menningu, hafa leitast við að standa vaktina að því marki sem fjármagn og aðstæður leyfa. Einn þáttur starfsins er varðveisla gamalla skipa, þ.e. stærri og minni skipa sem hafa sögulegt gildi en bátar í eigu safnanna eru um 190 talsins. Þetta eru bátar af ýmsum gerðum og flestir súðbyrðingar. Þeir uppfylla allir þá skilgreiningu að teljast forngripir en bátar eldri en frá árinu 1950 eru forngripir samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/2012, um menningarminjar. Á skipaskrá eru nú skip og bátar sem náð hafa þessum virðulega aldri um 15 talsins.

Tíminn er ekki sérlega hliðhollur vörsluaðilum á þessu sviði. Taka má sem dæmi að skektur, fjórrónar og minni, eru nánast ekki til í dag. Um aldamótin 1900 voru á annað þúsund þannig skektur í landinu sem höfðu jafnvel svæðisbundin sérkenni eftir aðstæðum. Þetta var eitt mikilvægasta verkfærið til bjargræðis öldum saman. Enn og aftur er niðurstaðan sú sama, herra forseti, að íslensk lagaumgjörð sem lýtur að varðveislu á mikilvægri arfleifð Íslendinga sem er verndun gamalla báta er því miður í skötulíki svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Bregðast þarf við og koma upp varðveislukerfi, t.d. sambærilegu því sem viðhaft er hjá húsafriðunarsjóði við mat mannvirkja. Þar er stuðst við kerfi þar sem hver varðveisluþáttur fær einkunn og mat lagt á varðveislugildi samkvæmt heildarniðurstöðu.

Herra forseti. Það er ekki hægt að varðveita allt. Það er ekki hægt að varðveita alla báta og kannski ekki ástæða til. En ég held að raunin sé nú sú að við erum hætt að brenna báta á báli um áramót, vonandi. En við þurfum að varðveita þverskurð íslenskra skipa og bátamenningar og við þurfum að leitast við að halda þeim á floti á sjó. Því er ástæða til að hvetja stjórnvöld til að halda vöku sinni gagnvart atvinnusögu og alþýðumenningu þjóðarinnar. Birtingarmynd andvaraleysis er skýr í þeim árangurslitlu tilraunum sem gerðar hafa verið til að skapa fjárhagslegan grundvöll fyrir varðveislu báta með opinberu fjármagni.

Því er þess nú enn freistað að leggja fyrir Alþingi tillögu þessa efnis að nýafstöðnu 100 ára afmæli fullveldis Íslands í þeirri vissu að vilji sé til að bæta úr í verki. Lagt er til að ríkisstjórninni verði falið að beita sér fyrir stofnun sjóðs sem hafi það hlutverk að úthluta fé til verkefna sem varða viðhald og varðveislu gamalla báta og skipa, með það að markmiði að til verði lifandi safn báta sem endurspegli með verðugum hætti einn mikilvægasta þátt íslenskrar atvinnusögu. Flutningsmenn sjá fyrir sér að sjóðurinn njóti árlegra framlaga af fjárlögum auk þess sem stuðlað verði að þátttöku starfsgreina sjávarútvegsins í verkefninu.

Það er skoðun flutningsmanna að það sé ríkur vilji og geta innan greina sjávarútvegsins, innan útgerðarfyrirtækja, til að koma til móts við þetta varðveisluverkefni og styðja við það með öflugum hætti. Við þekkjum það að Íslendingar eiga öflug útgerðarfyrirtæki, standa vel að rekstri þeirra og íslenskir útgerðarmenn hafa sýnt það í verki að þeir eru áhugamenn fyrir íslenskri menningu, íslenskri list og í viðskiptum og hafa fjárfest þar af dugnaði og kappi. Mér þætti ekki óeðlilegt að þeir myndu leggja sitt lóð á vogarskálarnar þarna þar sem um merkilegt varðveisluverkefni er að ræða innan þeirra eigin greinar.

Við leggjum til að gerðar verði áætlanir til fimm ára í senn sem sjóðurinn starfi eftir, á grundvelli samþykkta sjóðsins, þar sem fram komi reglur um varðveislugildi, úthlutanir til verkefna o.fl. Vel er hægt að hugsa sér að sjóðurinn þurfi ekki að blása út til langframa heldur megi að hluta til fela fyrirtækjum, stofnunum, sjóðum eða félagasamtökum að starfrækja einstök verkefni, einstaka báta, svæðisbundið eins og við þekkjum svo vel frá nágrannalöndum okkar. Við þekkjum það frá Noregi og er aðdáunarvert að koma til Noregs og verða vitni að þessari skemmtilegu flóru gamalla báta og skipa, t.d. í höfninni í Ósló. Í höfninni í Bergen er eitt af glæsilegustu skipum í veröldinni, Statsraad Lahmkuhl, sem er eign stofnunar sem starfrækir það, leigir það jafnvel út sem skólaskip og til rannsókna nú hin síðari ár á sviði umhverfisverndar og í sambandi við loftslagsrannsóknir. Þannig getum við séð þetta fyrir okkur hér líka, að við eignumst lifandi bátaflota sem er prýði og ber vott um dirfsku okkar í gegnum tíðina því að við eigum okkar merku siglinga- og sjósóknasögu.

Mælst er til þess að forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar, flytji Alþingi munnlega skýrslu fyrir þinglok í vor, eins og ég nefndi áðan. Við vitum að tíminn er orðinn naumur. Tafist hefur að leggja fram þessa tillögu en af verktæknilegum ástæðum fór það svo að þessi tillaga var fram komin á eftir þeirri sem flutt var fyrir nokkrum dögum. En við látum þessa töf ekki rugla okkur í ríminu. Aðalmálið er að þetta verkefni fái framgang og mikilvægt er að sjóðurinn sem við leggjum til að verði stofnaður verði starfræktur í góðu samstarfi við söfnin allt í kringum landið sem eru 13 eða 14 og um er getið í prentaðri útgáfu af þessari tillögu.

Herra forseti. Ég læt hér með lokið máli mínu.