150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir.

310. mál
[15:59]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Annaðhvort er ég hér að tala tungum eða þingmaðurinn er að leggja lykkju á leið sína til að snúa út úr orðum mínum. Aftur, og nú í þriðja sinn: Ég hef ekki verið að tala sérstaklega gegn vatnsaflsvirkjunum. Ég hef ekki verið að því., forseti.

Ég horfi ekki á málið eftir excel-skjali. Ef við erum hlynnt vatnsaflsvirkjunum, sagði hv. þingmaður. Það er ekki hægt að játa því eða neita að annaðhvort sértu hlynntur vatnsaflsvirkjunum eða ekki — til þess höfum við mat á umhverfisáhrifum. Ef menn halda því fram að það að biðja um að farið verði eftir ströngum reglum hvað varðar mat á áhrifum framkvæmda eins og vatnsaflsvirkjana sé það sama og að vera á móti vatnsaflsvirkjunum vegna umhverfisáhrifa þeirra, eins og hv. þingmaður kom að hér að áðan, þá eru þeir bara að snúa út úr. Ég tók það sérstaklega fram að það þyrfti virkjanir, að það þyrfti rafmagn. Ég tók það hins vegar um leið fram að ég vil að farið sé eftir ströngustu reglum hvað það varðar. Þess vegna fagna ég hugmyndum um úttekt á því og kannski þarf einföldun regluverks eins og ég lýsti stuðningi við. En það er ekki nóg að skoða það eitt.