151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

höfundalög.

136. mál
[14:51]
Horfa

Katla Hólm Þórhildardóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir þetta. Ég ætlaði bara að hrósa flokkunum í ríkisstjórninni fyrir að koma fram með þetta frumvarp. Það er rosalega mikilvæg bót. Ég vil bara vekja athygli á því að höfundaréttarlögin eins og þau eru stöðva mjög mikilvæga þróun í alls konar hugbúnaði sem byggist á tungumáli og þekkingu og því ekki hægt að þróa tölvuleiki og leikjaforrit og alls kyns hugbúnað sem við reiðum okkur á í daglegu lífi.

Í því samhengi má líka tala um endalausar kvartanir um að börn séu ekki nógu vel læs. Á sama tíma er ekkert verið að gera til að auka íslenskukunnáttu í því sem börn sækjast í nú til dags, sem eru tölvuleikir og alls konar smáforrit sem krakkar reiða sig á, bæði í skóla og annars staðar. En þau nota náttúrlega bara ensku og þá hrakar þeim í íslensku. Ég vona að þetta sé mögulega fyrsta skref þeirra flokka sem nú sitja í ríkisstjórn í átt að því að greiða fyrir nýsköpun og fyrir þróun sem við þurfum á að halda fyrir tungumálið okkar.

Ég þakka kærlega fyrir það að verið sé að greiða fyrir aðgengi sjónskertra og blindra.