151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

höfundalög.

136. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru skemmtilegar vangaveltur og umræður. Eign, vissulega. Höfundur, fólk sem skrifar bækur og skrifar sögur, svo að ég haldi mig við það — ég þekki þar til svo að ég taki nú dæmi af sjálfum mér. Höfundi dettur í hug saga og það er einhver sérstök saga sem mótast af því sem höfundur hefur lesið og hefur upplifað og því hvernig hann hugsar og hvernig hann skrifar og hvernig hann er. Hann býr til eitthvað einstakt sem er samt í rauninni eins og appelsína. Þegar einhver ræktar appelsínu og setur hana á markað fær hann eitthvert verð fyrir þessa appelsínu sína. Eins er með höfund. Þegar hann skrifar sögu, sem er þá hans appelsína, og setur hana á markað fær hann einhvern arð af henni. Hann fær greitt fyrir hana og það er í sjálfu sér ekki flókið. Eignarréttur hans snýst eingöngu um réttinn til að fá arð af vinnu sinni og réttur annarra rétthafa, útgefendanna, snýst um að fá eitthvað fyrir sinn snúð, eitthvað fyrir fjárfestingu þeirra í viðkomandi verki og þá fyrirhöfn sem viðkomandi hefur haft af því að búa til vöru úr þessari tilteknu sögu. Ég kem bara ekki auga á hvað er svona flókið við þetta eða af hverju það vefst fyrir okkur að greiða fyrir þessa vöru frekar en fyrir appelsínu eða banana eða hvað það er. Ég átta mig ekki á því. Því miður.