151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

réttindi sjúklinga.

563. mál
[16:08]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er afar mikilvægt frumvarp á ferðinni um það að skjóta lagastoð undir það þegar beita á nauðung eða þvingunum, sem almennt bann gildir um, við heilbrigðisþjónustu hvers konar. Með því er auðvitað verið að bregðast við, eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, ábendingum sem hafa ítrekað komið fram frá nefnd Evrópuráðsins um varnir gegn pyndingum sem og frá umboðsmanni Alþingis við OPCAT-eftirlit, en umboðsmaður Alþingis tók við því eftirliti og skilaði skýrslu 2018. Í skýrslunni kom fram að lagastoð væri ekki næg þegar grípa þyrfti til athafna gagnvart frelsissviptum einstaklingum í geðheilbrigðiskerfinu, á geðheilbrigðisstofnunum, og þegar þær athafnir fælu í sér þvinganir, valdbeitingu og inngrip í friðhelgi einkalífs þeirra þá væri ekki fyrir hendi fullnægjandi lagastoð. Þess vegna þarf að grípa þar inn í.

Auðvitað er óheppilegt að ekki sé nóg heildræn sýn á þetta vegna þess að í raun skarast mörg lög þegar um er að ræða þvingunaraðgerðir; lögræðislög, hegningarlög, lög um réttindi fatlaðra, lög um réttindi sjúklinga, barnaverndarlög, allt eru það lög sem þarf að skoða samhliða. En við hljótum þó alltaf að horfa fyrst og fremst á hvernig koma megi í veg fyrir nauðung eða þvingun. Tilgangurinn með þessu frumvarpi er jákvæður að því leyti að við verðum að hafa skýra lagastoð og hafa heimildina skýra fyrir þá sem þurfa að beita nauðung eða þvingun en ekki síður að hafa rammann algerlega skýran fyrir þann starfsmann sem þessu beitir eða þarf að beita. Það er kannski það sem maður veltir aðeins fyrir sér, þegar hæstv. ráðherra segir að tilgangurinn með þessu sé að lögfesta skýrar reglur um það hvenær megi beita nauðung og þvingun, hvort þetta frumvarp sé fullnægjandi og hvort það uppfylli þann tilgang að lögfesta nógu skýrar reglur.

Núverandi ástand, þar sem ákvörðun um inngrip er tekin af starfsfólki geðheilbrigðisstofnana án skýrra lagaheimilda, er óásættanlegt. Það kom skýrt fram í umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar þegar frumvarpið fór inn í samráðsgátt en bæði Landssamtökin Geðhjálp og Landssamtökin Þroskahjálp hafa áhyggjur af því að þær heimildir sem verið er að veita í þessu frumvarpi séu mögulega of óskýrar. Undanþágurnar sem eru í b-lið 3. gr., þar sem verið er að bæta við nýrri grein, 27. gr. c, eru þannig orðaðar að þetta er mjög vítt og óljóst. Ákvörðun yfirlæknis eða vakthafandi sérfræðilæknis, um nauðung eða fjarvöktun samkvæmt 1. mgr., þarf að vera í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að sjúklingur valdi sér eða öðrum líkamstjóni eða stórfelldu eignatjóni. Það á einnig við fyrirbyggjandi aðgerðir sem ætlað er að forða því að aðstæður komi upp sem leitt geta til líkamstjóns eða stórfellds eignatjóns. Þá segir í 2. tölulið að þetta þurfi líka að vera í þeim tilgangi að uppfylla grunnþarfir sjúklings, svo sem varðandi næringu, heilsu og hreinlæti. Maður veltir sérstaklega fyrir sér hvort þetta sé nógu skýrt, með leyfi forseta:

„Það á einnig við fyrirbyggjandi aðgerðir sem ætlað er að forða því að aðstæður komi upp sem leitt geta til líkamstjóns eða stórfellds eignatjóns.“

Það virðist sem þetta sé fullloðið. Það virðist vera sem þetta sé svo matskennt að sérfræðingur geti nánast — og nú er ég ekki að ætla sérfræðingum neitt illt heldur eingöngu að segja að með því að staðfesta frumvarpið eins og það er þarna er hætta á að löggjafanum sé ekki að takast að lögfesta skýrar reglur. Hvað eru skýrar reglur? Hvernig getum við sagt sérfræðingi á geðheilbrigðissviði að þetta eigi einnig við um fyrirbyggjandi aðgerðir sem ætlað er að forða því að aðstæður komi upp? Þetta er eitthvað sem við munum þurfa að skoða í nefndinni.

Þegar umboðsmaður Alþingis fór í heimsókn á þrjár lokaðar deildir kom fram í skýrslunni frá 2018 að mannréttindi notenda væru brotin þar nær daglega. Þá veltir maður fyrir sér hvort mannréttindi eru brotin nær daglega af því að lagastoð skorti eða vegna þess að ákvarðanir byggist ekki á nógu skýrum heimildum, að þetta séu ákvarðanir sem eru þannig teknar að rökstuðningurinn fyrir þeim sé ekki nógu góður og mögulega að of oft sé farið í aðgerðir sem eru ekki algjörlega nauðsynlegar til varnar lífi og heilsu sjúklingsins og þeirra sem þar eru nærri.

Það kemur einnig fram í þeim fáu umsögnum sem bárust að mögulega væri verið að byrja á öfugum enda. Það má segja að svo sé af því að hvergi er rætt um þá hugmyndafræði sem nauðsynleg er í þessum málaflokki. Hvernig viljum við haga þessum málum? Hvernig viljum við haga geðheilbrigðismálum á Íslandi? Í gær mælti ég fyrir þingsályktunartillögu þingflokks Samfylkingarinnar um að farið verði í byggingu nýs geðsjúkrahúss á Íslandi. Hvers vegna? Jú, af því að það er orðið algjörlega tímabært. Geðheilbrigðisþjónusta innan Landspítala fer fram í úr sér gengnu húsnæði við Hringbraut, sem og við Klepp. Ég hvet hæstv. ráðherra til að kynna sér þá þingsályktunartillögu og hvet þingheim allan til að skoða þetta af því að það væri a.m.k. fyrsta skrefið til þess að viðurkenna að geðheilbrigðisþjónusta á Íslandi hefur verið olnbogabarn frá fyrstu tíð. Ég ætla ekki að tala um að þarna séu geymdir einstaklingar sem kerfið skilur eftir en ekki er hægt að horfa fram hjá því að þarna eru frelsissviptir einstaklingar sem geta ekki einu sinni fengið að njóta útivistar vegna þess hvernig húsnæðismálum er háttað.

Mig langar líka að ræða um það að enginn möguleiki er á að fá að dvelja á lyfjalausri deild á Íslandi eins og þekkist annars staðar á Norðurlöndunum og víða um heim. Slíkt hefur ekki komist á dagskrá í geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi. Þess vegna hefur sjúklingur ekki val um að ná tökum á veikindum sínum án lyfjainngrips ef svo ber undir. Heilmikið hefur verið talað um þetta í samfélagi þeirra sem eiga við geðrænar áskoranir að stríða og ég held að árið 2021 verði heilbrigðisyfirvöld að taka á þessu.

Það þarf einnig að ræða að upp verði tekin fortakslaus skráning þvingana, að í hvert einasta skipti sem undanþáguákvæði er beitt sé það skráð með fullnægjandi hætti og þeirri skráningu skilað einhvers staðar inn þannig að eftirlit sé með deildum. Þær sögur sem berast m.a. okkur í velferðarnefnd frá fólki sem sætt hefur þvingunum, þær sögur sem berast út í samfélagið þegar fréttir koma upp á yfirborðið eins og af ástandinu í Arnarholti og sögur úr nútímanum, því sem er í gangi núna þegar er verið að beita t.d. þvingun við lyfjagjöf, eru þess eðlis að það verður að vera einhvers konar stíft eftirlit með því í hvert einasta skipti sem undanþáguákvæði er beitt þannig að ef þvingun eða nauðung er beitt þá verði það skráð og alltaf fylgst með því.

Ein umsögn kom frá einstaklingi inn í samráðsgátt sem býr augljóslega yfir mikilli reynslu, að því er virtist persónulegri reynslu, um að hótanir um nauðung séu í raun nauðung sem slík, af því að einstaklingurinn er frelsissviptur. Hann er inni á lokaðri deild þannig að hótunum um nauðung er ekki hægt að bregðast við nema þá með því að samþykkja. Það er ekki eins og viðkomandi hafi val þannig að það er í raun nauðung í sjálfu sér.

Ég verð að segja að ég hlakka til að vinna þetta frumvarp. Ég hlakka til að kalla eftir umsögnum. Ég hlakka til að fá til okkar fulltrúa notenda þjónustunnar af því að ég held að sú vinna kunni líka að gagnast okkur varðandi það verkefni sem nefndin er með á borðinu hjá sér núna, sem er að taka ákvörðun um hvernig á að framkvæma rannsókn á aðbúnaði og aðstæðum fullorðinna einstaklinga sem hafa verið að glíma við fötlun eða geðrænar áskoranir á undanförnum árum á Íslandi. Að því leyti er mjög gott að fá þetta frumvarp inn núna. Það er mikilvægt að skjóta skýrri lagastoð undir þær aðgerðir sem er beitt í dag og ég held að það færi vel á því á Íslandi árið 2021 að fara í markvissa heildræna stefnumótunarvinnu um það og vinnu varðandi hugmyndafræði um þjónustu við þá sem glíma við geðrænar áskoranir.