151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

almenn hegningarlög.

453. mál
[17:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á hluta spurningar hv. þingmanns um að það sé engin vitleysa að helförin hafi átt sér stað. Það var ekki það sem ég sagði. Ég sagði mjög skýrt: Helförin átti sér stað og er mest rannsakaði og staðfesti sögulegi viðburðurinn, hugsa ég, nokkurn tíma. Og hv. þingmaður þarf með fullri virðingu ekki að fræða mig um alvarleika helfararinnar, þess þarf ekki. Þá virtist hv. þingmanni skiljast á ræðu minni, sem er sennilega mér að kenna, að það væri ekkert hægt að gera. Ég held að alveg sé hægt að gera eitthvað. Ég held hins vegar að lausnirnar séu ekki faldar í því að banna þessar fáránlegu, ógeðslegu og hættulegu skoðanir. Þegar hv. þingmaður spyr um helförina í samanburði við önnur voðaverk, segjum þjóðarmorðin á Armenum, meint þjóðarmorð Tyrkja á Armenum, ég skal bara kalla það þjóðarmorð á Armenum, skal dirfast að gera það, og þegar spurt er: Má afneita því að 11. september hafi átt sér stað? Þar er um að ræða miklu lægri tölu og auðvitað allt annars eðlis, en samt spyr fólk spurningarinnar. Við þurfum að svara þeirri spurningu á einhvern annan hátt en að þetta sé einfaldlega ekki það sama.

Ég verð eiginlega að biðja hv. þingmann um að svara spurningunni sjálf. Helförin er vissulega hryllilegasti glæpur sem ég er meðvitaður um í Evrópu á 20. öldinni. En er það þá þannig að við setjum lög til að banna afneitun á hryllilegasta glæpnum en ekki næst hryllilegasta glæpnum eða næst næst hryllilegasta glæpnum? Ég veit það ekki, virðulegi forseti. Ég skil ekki hvort og þá hvaða lína eigi að vera þarna eða hvar hún eigi að vera. Ég er ekki sammála því að þessi aðferð sé í eðli sínu góð hugmynd. Ég skil alveg tilganginn, markmiðið er gott. Ég tel þetta gera meiri skaða en gagn. Það eru áhyggjur mínar af frumvarpinu.