151. löggjafarþing — 64. fundur,  4. mars 2021.

almenn hegningarlög.

453. mál
[18:18]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var í sjálfu sér búin að fara yfir þessi sjónarmið. Ég tel mig ekki vera þess umkomna að meta hvaða áhrif til kælingar eða ýfingar lagaákvæði hefur. Þar myndi ég aftur vilja ítreka að mér finnst það geta ekki átt við eitt og sér sem rök gegn ákvæði vegna brota sem við vitum að eiga sér stað. Löggjöfin þarf að geta gripið það þegar svona hættuleg tjáning hefur afleiðingar í för með sér. Eins og ég segi þá hef ég ekki gögnin, ég held að þau séu nú ekki aðgengileg. En það má ekki gefa sér það að þó að það sé í einhverjum tilvikum þannig að eitthvert bann hafi espað upp ákveðinn hóp manna þá séu það viðbrögð allra manna við svona ákvæði. Ég held að við séum alltaf að búa til ákvæði sem þetta vegna þess að skoðunin er til. Tjáningin er til. Tjáning þessarar hættulegu skoðunar er fyrir hendi og þess vegna erum við að bregðast við henni. Þannig að mér finnst þetta vera spurning um upphaf og endi, hvort kemur á undan. Ég ætla að leyfa mér að draga það stórlega í efa, og ég veit að hv. þingmaður heldur því ekki fram, að lagaákvæði búi til þetta hættulega samfélagslega mein. Mér finnst hann tala á þeim nótum, eins og maður heyrir, að meðalið sé hættulegra en sjúkdómurinn, með lagaákvæði sem þessu. Ég skil það sjónarmið. En ég myndi þá vilja spyrja: Á slíkt hið sama ekki við um lagaákvæði okkar sem tekur á hatursorðræðu? Styður þingmaðurinn ákvæði á borð við hatursorðræðuákvæðið sem er í hegningarlögunum nú þegar?