152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:26]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna um málefni fólks á flótta og útlendinga og innflytjenda. Sá hálfi milljarður sem hv. þingmaður vísar til hlýtur að vera á málefnasviði dómsmálaráðherra, geri ég ráð fyrir, því að ég kannast ekki við minnkun á málefnasviðinu í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. En gott og vel, ég held að það sé mjög erfitt að taka á móti fleira fólki með minna fjármagni, bara þannig að það sé sagt, það hlýtur að vera eitthvað sem þarf þá að skoðast í tengslum við fjárauka.

Hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni samræmda móttöku sem hefði mátt byrja mun fyrr og ég efast ekki um að það er hárrétt hjá hv. þingmanni. Það tilraunaverkefni sem hefur verið í gangi og var sett í gang þrátt fyrir að lagaumhverfið væri kannski á þeim stað að það mætti vera betra, sérstaklega út af persónuupplýsingum sem á þarf að halda í þessu verkefni, hefur gengið vel. Þar eru fimm sveitarfélög sem taka þátt. Núna í kjölfar þess að stríð braust út í Úkraínu hafa yfir 25 sveitarfélög óskað eftir bæði upplýsingum og sýnt áhuga og ég geri mér vonir um að mörg þeirra komi inn í samræmdu móttökuna núna í framhaldinu.

Hv. þingmaður gerir líka að umtalsefni mikilvæga vinnu sjálfboðaliða og ég tek undir það með hv. þingmanni. Ég heimsótti m.a. sjálfboðaliða í Guðrúnartúni núna fyrir viku síðan eða svo, og þar ræddum við einmitt um þetta, að koma á samráðsfundum þannig að hið opinbera geti lært beint af sjálfboðaliðunum og sjálfboðaliðarnir viti betur hvernig hið opinbera, ríki og sveitarfélög, halda utan um málefnið í heild sinni. Þannig að svarið er já, við erum að vinna í því.