152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:40]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek í fyrsta lagi undir mikilvægi þess að sveitarfélögin séu með í endurskoðuninni og ég gleymdi að nefna að þau eiga að sjálfsögðu fulltrúa í þeirri vinnu og líka Landssamband eldri borgara, ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta upp.

Aðeins að fyrri spurningu og umræðu okkar hér. Eitt af því sem er verkefnið fram undan er sveigjanlegri starfslok eldra fólks sem skiptir miklu máli. Það voru gerðar breytingar sem leyfa þennan hlutalífeyri fyrir nokkrum árum, ef ég man rétt, en þarf að skoða líka, og ég tek undir það með þingmanninum, í samhengi við sveigjanlegri starfslok.

Hv. þingmaður kemur hér inn á framhaldsfræðsluna, sem er einmitt að flytjast yfir í félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og ég sé sífellt meiri tækifæri í því vegna þess að þetta er auðvitað nátengt vinnumarkaðnum. Það sem ég lagði áherslu á núna strax í upphafi er að ganga frá samningum við símenntunarmiðstöðvarnar og sú vinna er á lokametrunum. Varðandi þá endurskoðun sem óneitanlega er fram undan þá nefna allir þeir aðilar sem ég hef hingað til rætt við, og ég á eftir að ræða við marga sem koma að þessum málaflokki, að núna sé tækifærið og tíminn til að horfa og meta hvað hefur gengið vel, hvað mætti betur fara og ráðast í heildarstefnumótun á þessu sviði. Það er það sem ég ætla mér að gera. Íslenskukennslan er gríðarlega mikilvæg þar inni. En það er líka mikilvægt að við endurskoðun á lögum um framhaldsfræðslu þá skilgreinum við betur markhópana. Innflytjendur eru þar einn af þeim markhópum sem við þurfum að gera betur grein fyrir. Það má sama segja um fatlað fólk. Ég tek líka undir það með hv. þingmanni að þessa þjónustu þarf að tryggja um allt land.