152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:45]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir umræðuna um vinnumarkaðsmál. Auðvitað tek ég undir áhyggjur hans af aukinni verðbólgu. Spáin er sú að hún muni hækka núna á næstu misserum en hjaðna síðan aftur. Í þessu samhengi eru áhyggjur mínar kannski fyrst og fremst af því fólki sem er á leigumarkaði, lágt launuðum barnafjölskyldum. Hér spyr hv. þingmaður út í kjarasamningsgerð og um það vil ég bara segja að við gerum ekki grein fyrir fjármagni inn í fjármálaáætlun til kjarasamningsgerðar sem ekki hefur átt sér stað. Það þarf þá að takast á við það í fjáraukalögum. En við erum hins vegar með stóran varasjóð sem þarf auðvitað að grípa verkefni sem koma upp og kjarasamningsgerðin er augljóslega eitt af þeim. Ég held að það séu, og tek undir með hv. þingmanni, bara mjög stórar áskoranir fram undan á vinnumarkaðnum þegar kemur að kjarasamningsgerðinni. Það er líka alveg rétt að ríkið er stór samningsaðili en það er nú fjármálaráðherra sem fer með þau mál fyrir hönd ríkisins. En komandi mánuðir munu vonandi verða nýttir vel. Ég veit alla vega að ríkissáttasemjari er að vinna góða undirbúningsvinnu til þess að vera betur í stakk búinn ef það þarf að leita eftir liðsinni hans, sem ég efast ekki um að verði í einhverjum tilfellum.