152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[12:47]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Þrátt fyrir að ekki sé endilega verið að leggja til einhverja fjármuni í kisturnar núna til þess að mæta þessu þá eru auðvitað aðgerðir í fjármálafrumvarpinu sem geta stuðlað að því að hægt sé að gera hófstillta kjarasamninga. En ég sé ekki að verið sé að nýta það. Ég vil bara minnast á stofnframlögin sem snúa að tekjulægri einstaklingum. Þau nýtast líka fötluðu fólki. Þau nýtast líka námsmönnum. Það er verið að skera þetta niður við trog og þetta mun skapa úlfúð því að þetta var eitt af stóru málunum sem verið var að nefna í aðdraganda síðustu kjarasamninga. En að sjá þetta skorið niður svona eins og er verið að gera mun auðvitað bara auka vandann. Þannig að mér finnst einhvern veginn eins og það sé ekki verið að horfa til þess að reyna að búa til einhvern frið sem getur hjálpað til við að ná utan um kjarasamningagerðina. Stofnframlögin, húsnæðismálin — af því að ráðherrann hefur áhyggjur af tekjulágum einstaklingum sem eru á leigumarkaði — bara sú verðbólga sem er til staðar í dag er búin að svipta fólk þeirri launahækkun sem átti sér stað um áramótin. Það er bara hin raunverulega staða gagnvart tekjulágum einstaklingum. Og það að skera niður stofnframlögin núna þegar þessi aðgerð ein og sér hefði getað létt á félagslegu kerfi sveitarfélaganna er bara algjörlega út í bláinn. Ég átta mig ekki á því hvað ríkisstjórnin er að fara þegar hún leggur til að skera niður stofnframlögin.