152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:00]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þau málefnasvið sem falla undir verksvið matvælaráðherra eru nr. 12, 13 og að hluta 7, 17 og 21. Helstu fjárhagsstærðir snúa annars vegar að málefnasviði landbúnaðar þar sem gert er ráð fyrir að árlegar heimildir verði í kringum 19 milljarðar kr. á áætlunartímabilinu og u.þ.b. 6,4–6,8 milljarðar á sviði sjávarútvegs og fiskeldis.

Stærstu breytingarnar á tímabilinu snúa að kaupum á nýju hafrannsóknaskipi, en á árinu 2023 fellur niður 2 milljarða kr. framlag til framkvæmdarinnar. Frá og með árinu 2019 er búið að veita um 5,8 milljarða til verksins, en samkvæmt fyrirliggjandi áætlun er ekki gert ráð fyrir frekari framlögum til verksins. Samningar um smíðina voru undirritaðir 31. mars síðastliðinn og er fyrirhugað að skipið verði afhent á árinu 2024.

Aðrar helstu breytingar snúa að niðurfellingu á 700 millj. kr. tímabundnu framlagi sem kom inn í fjárlögum 2022 til eins árs til stuðnings bænda vegna hækkunar áburðarverðs. Þá er á árinu 2023 gert ráð fyrir 200 millj. kr. tímabundnu framlagi í eitt ár til hvalatalningar. Á sviði landbúnaðarmála verða sköpuð skilyrði til fjölbreyttari landbúnaðar með sjálfbæra landnýtingu og nýsköpun að leiðarljósi, auk þess sem áhersla verður lögð á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda ásamt eflingu fæðuöryggis.

Ljóst er að ein helsta áskorun samtímans felst í loftslagsbreytingum, áhrifum þeirra á matvælaframleiðslu og aðlögun að þeim. Stjórnvöld hafa sett sér markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 og við fyrri endurskoðun búvörusamninga var lögð áhersla á loftslagsmál og sett voru markmið um að landbúnaðurinn verði að fullu kolefnisjafnaður 2040. Mikilvægt er að skapa landbúnaðinum þau skilyrði að hann þróist og styðji við nýsköpun og framþróun án þess þó að slá af kröfum. Við síðari endurskoðun búvörusamninga á árinu 2023 verður samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar lögð áhersla á að tryggja fæðuöryggi á Íslandi með því að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu. Horft verður til þess að styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun.

Á sviði sjávarútvegs og fiskeldis verður lögð áhersla á að skapa sjávarútvegi og fiskeldi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Auk þess er í áætluninni lögð áhersla á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda við fiskveiðar og fiskeldi, auka nýtingu afurða og lágmarka úrgang. Sjávarútvegur og fiskeldi standa frammi fyrir fjölmörgum áskorunum á næstu árum. Sú stærsta af þeim eru loftslagsbreytingar af mannavöldum. Atvinnugreinarnar eiga allt undir að nýting þeirra sé byggð á vísindalegri, varfærnislegri nálgun með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi. Sjávarútvegur og fiskeldi búa við krefjandi alþjóðlega samkeppni og því þarf rekstrarumhverfi þeirra að vera samkeppnishæft til að standa undir því hlutverki sem þær hafa í íslensku samfélagi. Mikilvægt er að rekstrarskilyrði greinanna standist ýtrustu kröfur um sjálfbæra nýtingu og vernd lifandi auðlinda hafsins svo tryggja megi að íslenskur sjávarútvegur og fiskeldi séu í fremstu röð.

Hafin verður vinna við að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi þar sem lokaafurð þeirra vinnu verður m.a. frumvarp til nýrra laga um stjórn fiskveiða eða heildarlaga um auðlindir hafsins á árinu 2024. Það verða verkefni á sviði orkuskipta, nýsköpunar, hafrannsókna og gagnsæis eignatengsla í sjávarútvegi. Í fiskeldi hefur orðið mikill vöxtur síðustu ár og hefur sá hraði vöxtur verið áskorun. Þess vegna verður unnin heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku í fiskeldi. Í stjórnarsáttmála er kveðið á um orkuskipti í sjávarútvegi og verður áframhaldandi vinna í þeim efnum byggð á tillögum úr nýlega útgefinni skýrslu um græn skref í sjávarútvegi. Stutt verður við öflugt styrkjakerfi til að stuðla að framþróun í sjávarútvegi og fiskeldi. Þar leika Umhverfissjóður sjókvíaeldis og Fiskeldissjóður mikilvægt hlutverk. Áskoranir á næstu árum tengjast breytingum í umhverfi, loftslagsbreytingum, vistkerfi sjávar og útbreiðslu fiskstofna. Með stofnun Matvælasjóðs á árinu 2020 var lagður mikilvægur grunnur að því markmiði að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Á þessu ári verða 593 millj. kr. til úthlutunar úr sjóðnum. Sjóðurinn mun á komandi árum stuðla að aukinni verðmætasköpun og samkeppni íslenskrar matvælaframleiðslu.

Að lokum langar mig að nefna að málefni landgræðslu og skógræktar voru flutt yfir í matvælaráðuneyti við uppskiptingu málefna Stjórnarráðsins. Þar verður áfram haldið mikilvægri vinnu við að takast á við loftslagsmál, að bæta vistkerfi, endurheimta vistkerfi sem hafa tapast á undanförnum áratugum og öldum og vil ég þar nefna sérstaklega svokallaða Bonn-áskorun sem á árinu 2030 að hafa endurheimt skógarvistkerfi á 5% landsins, en í dag þekja þau um 1,5%.