152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Mikil samþjöppun hefur átt sér stað í sjávarútvegi á undanförnum áratugum. Tíu stærstu útgerðirnar fara með meira en helming kvótans og 20 stærstu meira en 70% kvótans. Ofan á þetta bætist svo eignarhald þessara útgerðarrisa í öðrum útgerðum. Fyrir rúmum 20 árum voru samþykktar lagabreytingar sem ætlað var að vinna sérstaklega gegn samþjöppun aflahlutdeildar. Samþjöppun var talin skaðleg, ekki síst út af mikilvægi fiskveiða fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Samþjöppun kæmi í veg fyrir samkeppni og hamlaði nauðsynlegri endurnýjun. Þá var bent á að samþjöppun gæti beinlínis unnið gegn þjóðarhag, sérstaklega ef viðkomandi stæðu sig ekki í því að skapa sem mest verðmæti úr auðlindinni. Tilfærsla milli byggða myndi skaða sveitarfélög og tilfærsla milli útgerðarflokka gæti leitt til þess að minni útgerðir færu halloka. Of sterk yfirráð fárra aðila yfir fiskveiðiauðlindinni myndi þýða meiri völd þeirra í þjóðfélaginu en heilbrigt væri og of sterka stöðu gagnvart stjórnvöldum. Útgerðarrisar fjárfesta í öðrum greinum og hasla sér þar völl, t.d. með því að kaupa sér hlut í banka eins og dæmin sanna. Ljóst er að lögin hafa ekki náð tilgangi sínum enda má samkvæmt þeim einn aðili ráða yfir 12% kvótans og því til viðbótar eiga 49,99% í öllum hinum fyrirtækjunum sem ráða yfir þeim 88% sem út af standa. Þannig getur einn aðili átt hlutdeild í meira en helmingi kvótans sem árlega er úthlutað. Þessi túlkun á lögunum ýtir augljóslega undir samþjöppun og gengur þvert á anda þeirra. Getur hæstv. ráðherra ekki tekið undir það með mér að nauðsynlegt sé að vinna gegn slíkri samþjöppun með því að breyta lögum um stjórn fiskveiða líkt og verkefnisstjórn um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni lagði til í skýrslu sinni, sem kom út í lok ársins 2019?