152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og gott að heyra að það er verið að horfa til nýliðunar. Það er ákaflega mikilvægt. Það eru líka ákveðnar aðstæður sem ríkisvaldið getur komið að þegar kemur að nýliðun og það er þegar ættliðaskipti verða á bújörðum. Þegar verðmæti jarðar er orðið töluvert sem er orðið nokkuð algengt í landbúnaði í dag, þá getur verið afar íþyngjandi fyrir viðtakanda, segjum bara t.d. börnin, að taka við því að fjármagna kaup á jörðinni á markaðsvirði eða standa straum af þeim opinberu gjöldum sem leggjast á þá gerninga. Þessar hindranir skapa óneitanlega hvata til að jarðir séu seldar hæstbjóðanda á almennum markaði. Þá eru þessi ættliðaskipti fyrir bí. Ég held að t.d. í Þýskalandi, a.m.k. á ákveðnum svæðum í Þýskalandi, þá sé þessu þannig farið að það þurfi ekki að greiða gjöld eða skatta af sölunni í einhvern árafjölda og jafnvel ekki fyrr en viðkomandi hættir búskap. Þarna eru stjórnvöld að greiða fyrir því að þessi ættliðaskipti gangi í gegn. Ég held að það sé afar mikilvægt að við skoðum þetta vegna þess, eins og ég sagði áðan, að það eru orðin það gríðarleg verðmæti í jörðum að ungt fólk getur ekki tekið við búskapnum. Ef foreldrar selja barni eða börnum sínum undir markaðsverði lítur Skatturinn svo á að þetta sé gjafagerningur. Þarna er náttúrlega bara verið að leggja stein í götu þess að eðlileg ættliðaskipti eigi sér stað og við höldum landinu í ábúð.