152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:21]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns af nýliðun í landbúnaði. Þetta er búið að vera mjög lengi þannig. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, það er erfitt að standa straum af þeim kostnaði sem þessi nýliðaskipti hafa í för með sér. Ég er að sjálfsögðu opinn fyrir því að skoða hvernig er verið að greiða fyrir nýliðun í öðrum löndum. Það er eitthvað sem ég held að sé bara mjög mikilvægt að horfa til þó svo að það liggi kannski ekki á málefnasviði matvælaráðherra en væru hugmyndir sem alltaf kæmu þaðan, myndi maður ætla. En mig langar að ræða aðeins í stærra samhengi mikilvægi þess að sveitirnar okkar séu þessi jarðvegur fyrir margvíslega starfsemi. Ég átti mjög áhugavert samtal í fyrrasumar við unga bændur í Húnavatnssýslu og þar sagði einn bóndinn við mig: Sko, það skiptir mig ekki endilega mestu máli hvaða búskap nágranninn hérna hinum megin í dalnum er með eða hvort hann er tölvunarfræðingur eða er að skrifa glæpasögu eða hvað það er, bara að það sé ljós á hinum bæjum. Þetta finnst mér fanga mjög vel það sem við þurfum að horfa til í þeim samfélagsbreytingum sem eru að verða í dreifbýlinu, að dreifbýlið þarf að geta togað til sín fleira fólk en bara það sem ætlar sér að stunda landbúnað, þó svo að ástundun landbúnaðar í dreifbýli sé líka undirstaða fyrir því að sveitirnar okkar geti blómstrað.