152. löggjafarþing — 64. fundur,  7. apr. 2022.

fjármálaáætlun fyrir árin 2023--2027.

513. mál
[13:42]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna hér um landbúnaðarmál. Ég held að hún mætti alveg vera meiri í þessum ágæta sal, ég held að hv. þingmaður sé mér sammála um það. Hv. þingmaður kemur hér inn á nokkur atriði sem eru afskaplega mikilvæg. Mig langar fyrst að koma inn á matvælaöryggið. Bændur hafa verið að tala um matvælaöryggi og hlut landbúnaðar í því í mjög mörg ár, en ég held að við megum sem stjórnkerfi veita þessu meiri athygli. Núna er þetta mál náttúrlega mjög ofarlega á baugi eftir þessa hræðilegu innrás Rússa í Úkraínu vegna þess að Úkraína er mjög stórt landbúnaðarland, einn stærsti útflutningsaðili á hveiti í heiminum, og ég vil meina að við þurfum að horfa á öryggi Íslands út frá þessum þætti sérstaklega og tek undir það með hv. þingmanni.

Síðan langar mig aðeins að koma inn á tengsl loftslagsmála og landbúnaðar, sem er eitt af þeim atriðum sem nefnd eru í fjármálaáætluninni. Þar eru líka stór verkefni fram undan því að hlutur landbúnaðar í þessari losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi sem heyrir undir beinar skuldbindingar okkar er stór, um 20%, svipað og sjávarútvegurinn. Þarna eru verkefni sem snúa kannski fyrst og fremst að tilbúnum áburði, snúa að iðragerjun búfjár og síðan öðrum þáttum. Þarna eru gríðarlega stór og mikilvæg verkefni fram undan sem ég næ kannski að ræða betur á eftir.